Sjávarþang - Grænmeti úr hafinu

Það finnast yfir 20 tegundir af sjávarþangi sem er notað til manneldis í dag eins og nori, kombu, þari, wakame, beltisþari, söl, o.fl. Þang er talin ein næringaríkasta fæða sem til er en sumar tegundir þangs innihalda meira kalk en ostur, meira járn en kjöt, meira prótein en egg, ásamt því að vera sneisafullt af fjölmörgum öðrum næringarefnum. Þang inniheldur mikið magn af joði sem er mikilvægt fyrir starfsemi skjaldkirtils en án joðs dregur úr framleiðslu skjaldkirtilshormóna sem getur haft veruleg áhrif á efnaskiptin í líkamanum. Japanskir vísindamenn í Hokkaido háskólanum hafa fundið virkt efni í þangi sem heitir ´fucoxanthin´ sem dregur úr fitusöfnun í frumum og gæti gagnast við offitu en frekari rannsókna er þörf. Margar rannsóknir á síðustu árum sýna að þang inniheldur afgerandi magn krabbameinshamlandi efna og að neysla þess geti að hluta útskýrt mikinn mun á tíðni krabbameins í Japan og á Vesturlöndum, sérstaklega hvað varðar brjósta- og blöðruhálskirtilskrabbamein, en neysla þangs í Japan er allt að 10% af daglegri neyslu. Ýmis virk efni hafa fundist í þangi sem hafa bólgueyðandi áhrif og jákvæð áhrif á ónæmiskerfið.
Til þess að auka inntöku okkar á þangi er upplagt að klippa þang í súpur, pottrétti og í sushi. Ein frábær leið er að blanda saman í litla skál möndlum, rúsínum og sölvum og narta í milli mála.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is