Rosalegar rauðrófur!

Rauðrófur eru eitt af mínu uppáhalds grænmeti bæði vegna hollustugildis og bragðsins. Rauðrófur eru sneisafullar af næringar- og plöntuefnum og innihalda m.a. ríkulegt magn af járni, A, B6 og C-vítamíni, fólínsýru, magnesíum og kalíum. Þar að auki innihalda þær góð flókin kolvetni, trefjar og öflug andoxunarefni. Rauðrófur eru oft ráðlagðar fyrir fólk sem glímir við blóðleysi og slappleika vegna járninnihalds og nýlega kom í ljós að þær innihalda einnig efni (nítröt, e. nitrates) sem leiða til meira úthalds og atorkusemi. Hér eru nokkur dæmi um heilsubætandi áhrif rauðrófa; þær ýta undir afeitrunarferli lifrarinnar, geta haft lækkandi áhrif á blóðfitu vegna trefjainnihalds, hafa hugsanlega hamlandi áhrif gegn krabbameini, örvandi fyrir meltinguna og að auki eru þær taldar góðar gegn ýmsum húðsjúkdómum vegna hreinsandi eiginleika. Rauðrófur ættu að vera hluti af okkar grænmetisinntöku yfir vikuna og þær fást nú víða, ýmist ferskar, soðnar eða tilbúnar pressaðar sem safi. Sjálf nota ég rauðrófur ýmist saxaðar í teninga út á salat, bý til rauðrófusúpu, geri rauðrófusafa eða rauðrófuboost með ávöxtum eða ofnbaka þær með sætum kartöflum. Svo gefa þær líka svo fallegan lit á matinn og við eigum jú að reyna að borða mat í öllum regnbogans litum!


Rauðrófusnakk:

2 stórar rauðrófur
½ - 1 msk græn ólífuolía
Smá sjávarsalt

Afhýða rauðrófur og skera í eins þunnar sneiðar eins og hægt er.

Setja í skál með olíu og salti og velta saman þar til blandað.

Setja bökunarpappír á ofnplötu og dreifa ofan á.

Baka í ofni við 150°C í 30-40 mín eða þar til stökkar og „crispy“

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is