Ráð gegn brjóstsviða og bakflæði

Að mínu mati eru óþarflega margir að taka lyf gegn brjóstsviða og bakflæði og það sem mér finnst athyglisvert í þessu er að sjaldan er pælt í því hvað sé raunverulega að valda þessum einkennum í daglegu lífi. Þess í stað eiga töflurnar að vinna verkið og viðkomandi heldur áfram að borða sömu fæðu og gera áfram það sama og vanalega án þess að gera nokkrar breytingar á venjum sínum. Vandamálið er ennþá til staðar engu að síður og til þess að reyna að draga úr þessu er mikilvægt að reyna að setja hlutina í samhengi og fylgjast með því hvað það er sem ýtir undir einkennin hjá okkur sjálfum. Eftirfarandi atriði geta komið af stað brjóstsviða og bakflæðiseinkennum.

Sítrusávextir
Sterkur matur
Brasaður matur
Tómatar
Súkkulaði
Fæðuóþol t.d. glútein og mjólkurvörur
Streita / stress
Áfengi, tóbak
Kaffi og aðrir koffíndrykkir
Bakteríur í meltingarvegi s.s. Helicobacter pylori.
Of stórir matarskammtar / ofát
Ef borðað er rétt fyrir svefn


Það eru nokkur náttúruleg efni sem koma að gagni eins og lakkrísrót en hún fæst t.d. í tuggutöflum og heitir DGL (búið að fjarlægja efni úr henni sem getur hækkað blóðþrýsting). Margar jurtir gagnast brjóstsviða og bakflæði og meðal þeirra eru t.d. mjaðjurt, regnálmur, kamilla, morgunfrú og fennel. Önnur efni eru t.d. lífrænn aloe vera safi sem er græðandi fyrir slímhúð í meltingarvegi, meltingarensím (digestive enzymes) sem hjálpa til við niðurbrot fæðunnar og acidophilus gerlar sem byggja upp heilbrigða þarmaflóru.


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir