Óvenjulega góð og hreinsandi vorsúpa

Vorið er handan við hornið og líkaminn farin að kalla á meira grænt þannig að það er vel við hæfi að deila uppskrift að afar fljótlegri súpu sem er allt í senn hreinsandi, nærandi og létt í maga. Vorið er svo yndislegur árstími að mínu mati og og alltaf svo notaleg tilfinning þegar maður finnur hvað daginn er að lengja, heyrir fuglana syngja og sér litlu vorblómin gægjast í garðinum. Mér er mikið í mun að hvetja fólk til þess að auka inntöku sína á grænmeti og ávöxtum og eru súpur sem þessar algjör snilld til þess að húrra vel upp daglega skammtinum okkar. Súpa sem þessi flokkast sem hráfæðissúpa og eru alltaf kaldar til að viðhalda lifandi ensímum og næringarefnum sem gera kroppnum svo gott (megið samt alveg líka nota heitt vatn ef viljið hafa hana aðeins volga). Það besta við svona súpu er að maður snarar þessu fram á 5 mín í blandara eða matvinnsluvél. Endilega prófið þessa, hún er æði og kemur á óvart!

Avókadó, aspas og spínatsúpa:

2 avókadó
2 bollar vatn
2 bollar ferskur aspas
(í bitum, skera enda frá)
2 msk sellerí saxað
4 tsk tamari sojasósa
2 msk sítrónusafi
1 tsk vorlaukur
1 hvítlauksrif kramið
¼ tsk þurrkað timjan
½ tsk tarragon krydd
1 ½ bolli ferskt spínat
½ tsk sjávarsalt
smá malaður pipar
ögn af cayenne pipar

Öllu skellt í blandara og njóta...

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir