Orkudrykkir – Börn og unglingar

Ég lenti á spjalli við kennara í liðinni viku og hann benti mér á hvað óhófleg neysla á orkudrykkjum væri orðin algeng nú til dags meðal unglinga í framhaldsskólum. Sjálf hef ég einnig orðið vör við þetta á íþróttamótum hjá börnunum mínum en það sem stendur til boða að kaupa fyrir krakkana til að nærast á meðan á mótunum stendur eru yfirleitt orku/íþróttadrykkir, sælgæti, ávaxtasafar, samlokur, stundum pizzusneiðar og jafnvel sætabrauð. Vissulega orkurík fæða í orðsins fyllstu merkingu en hvernig væri að endurskoða þetta aðeins og bjóða upp á aðeins hollari valkosti hvort heldur í skólunum eða í tengslum við íþróttamótin. T.d. er hægt að selja ávexti, grænmetisstangir, orkustangir úr hnetum og þurrkuðum ávöxtum, tilbúin boost í gleri, skyr, o.fl. Hvað hafa börn og unglingar að gera við allt þetta koffín, fljótandi sykur og litarefni þegar kemur að íþróttaiðkun eða skóla? Er þetta málið til að auka frammistöðuna og úthaldið? Orkudrykkir geta haft slæm áhrif á líkamsstarfsemi barna og unglinga en þeir innihalda yfirleitt koffín sem getur valdið því  að æðarnar víkka út og hjartsláttur verður örari. Koffín hefur áhrif á öndun, meltingu og þvagmyndun. Mikil neysla á koffíni getur valdið svefnleysi, svima, skjálfta, hjartsláttartruflunum og kvíða. Koffín er ávanabindandi og allt of sterkt efni fyrir börn og unglinga en sem dæmi þá inniheldur 500 ml orkudrykkur allt að 160 mg af koffíni og einstaklingur sem er 50 kg má ekki fá meira en sem nemur 125 mg af koffíni á dag. Hámarsneysla koffíns fyrir börn og unglinga er 2,5 mg/kg á dag. Svo má ekki gleyma því að til viðbótar við koffíninnihald þá eru þessir drykkir annað hvort skærbláir, neongulir, rauðir á litinn svo dæmi sé nefnt og uppfullir af sykri til að gera þá enn kræsilegri og meira spennandi fyrir þessa aldurshópa. Að mínu mati er þetta orðið allt of algengt og þá sérstaklega meðal unglinga en sala á orkudrykkjum hefur aukist töluvert milli ára sem bendir til aukinnar neyslu á þessum vörum. Við sem foreldrar þurfum klárlega að vera vakandi og meðvituð um áhrif þessara drykkja og fylgjast með hvað börnin okkar eru að innbyrða af þessum drykkum.


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir