Ómissandi í ferðalagið

Það eru nokkrir hlutir sem ég tek alltaf með mér þegar ég er á ferðalagi með fjölskylduna og geta komið sér vel þegar á þarf að halda. Ég er eins og skáti þegar kemur að því að pakka niður í tösku, öllu við búin og yfirleitt er ég með einhver ráð og trix í töskunni þegar einhvern vantar plástur, mat, eða eitthvað að dunda. Hér er smá listi yfir hluti sem gott er að hafa meðferðis þegar við ferðumst.

·      Hnetur, fræ og þurrkaðir ávextir. Mjög vinsælt hjá okkur eru kasjúhnetur, möndlur, valhnetur, ristuð graskerfæ, lífrænt dökkt súkkulaði, kókósflögur og goji ber. Frábært til að halda blóðsykrinum í jafnvægi og þegar svengdin lætur á sér kræla milli mála.

·      Sólarvörn fyrir alla fjölskylduna og lífrænt Aloe vera gel. Algjör nauðsyn og ég kaupi alltaf lífræna sólarvörn sem inniheldur ekki toxísk efni t.d. frá Aubrey Organics og Lavera.

·      Lavender ilmkjarnaolíu, sótthreinsandi handgel og plástra. Lavender er græðandi og bakteríudrepandi og gott að bera á sár.

·      Eyrnaolíu. Ég hef alveg lent í því að einhver fái í eyrun í fríinu og þá svínvirkar að hafa eyrnaolíu við höndina svo allir verði glaðir.

·      Acidophilus gerla og Grape seed extract töflur. Mér finnst nauðsynlegt að hafa acidophilus gerla til að halda meltingunni í lagi þegar maður er að borða annan mat en maður er vanur. Að auki eru gerlarnir ónæmisstyrkjandi og Grape seed extract töflurnar er síðan gott að nota til að koma í veg fyrir sýkingar eða þegar við verðum lasin.

·      Lítil plastbox til að setja nesti í og ‘shake’ plastglas til að hrista sér ofurdrykk á ferðinni. Hef yfirleitt grænt súper næringarduft í litlu boxi og hristi með vatni.

·      Spilastokk til að grípa í spil með fjölskyldunni á kvöldin.

·      Góða bók til að lesa í sólinni og litla minnisblokk til að hripa niður góðar hugmyndir sem koma oft til manns í fríinu þegar maður er afslappaður;)

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.

www.facebook.com/grasalaeknir.is

www.pinterest.com/grasalaeknir