Nýtt ár – Nýjar venjur!

Nýtt ár kallar á nýtt upphaf, nýjan kraft og breytingar og margir sem setja sér háleit markmið í byrjun árs þegar kemur að því að taka á heilsunni. Markmið eru klárlega af hinu góða og eru mjög gagnleg til að marka stefnu okkar, hverju við viljum áorka, en allt of algengt er að við ætlum okkur of mikið í einu sem verður til þess að við missum sjónar á markmiðum okkar. Vænlegast er því að setja sér færri markmið sem eru yfirstíganleg og sem verða til þess að við náum að gera þau að hluta af lífsstílnum okkar og setja sér þess í stað önnur eftir ákveðinn tíma þegar þeim fyrri hefur verið náð. Þannig náum við frekar að breyta venjum okkar til hins betra með því að taka alltaf skref fyrir skref upp á við. Við getum t.d. byrjað á að breyta morgunmatnum okkar og gert hann hollari og einblínt á það þar til það er komið í gott horf og svo bætt inn nýrri venju í kjölfarið. Það er gott að yfirfara hjá sér lífsstílinn og skoða hvar maður getur bætt sig og gera markmið í samræmi við það. Hvernig get ég gert millibitana hollari? Hvernig get ég gert máltíðirnar mínar heilsusamlegri? Hvað er ég að drekka yfir daginn? Hversu oft ætla ég mér að æfa í hverri viku og hvernig hreyfingu vil ég stunda? Endalausir möguleikar til að bæta sig og alltaf skemmtilegt að skora á sjálfan sig á nýju ári að takast á við ný verkefni sem snúa að því að bæta heilsu okkar enn frekar. Ég læt hér fylgja með einfalda uppskrift að boosti sem ég nota talsvert oft og hentar t.d. vel sem morgundrykkur eða til að koma okkur af stað inn í daginn.  

Grænt hreinsiboost:

1 appelsína í bitum
1 msk sítrónusafi
1 b spínat eða grænkál
1 b kókósvatn eða vatn
½ grænt epli
½ avókadó   
½ b klakar ef vill
½ tsk engifer duft


Öllu skellt í blandara

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir