Nokkur ráð gegn vetrardepurð

Skortur á sólarljósi yfir vetrartímann getur haft þau áhrif á líkamann að framleiðsla á ‘gleði’ taugaboðefninu serotóníni minnkar sem hefur áhrif á lundafar okkar og getur ýtt undir depurð, sem oft er nefnt skammdegisþunglyndi eða ‘seasonal affective disorder’. Einkenni sem fólk getur fundið fyrir tengt þessum árstíma eru depurð/þunglyndi, þreyta og slen, tilhneiging til að sofa of mikið og borða of mikið (sérstaklega löngun í kolvetni/sætindi), erfiðleikar við að vakna á morgnana, skortur á framkvæmdaorku og drifkrafti. Ef einkenni eru það mikil og hamla daglegum athöfnum okkar þarf að leita frekari aðstoðar til að fá viðeigandi meðferð, en fyrir væg einkenni geta eftirfarandi ráð verið mörgum gagnleg til að lyfta sér upp úr skammdeginu:

Hreyfum okkur reglulega og aukum þannig náttúrulega framleiðslu  á gleðihormónum líkamans.

Borðum næringarríkan mat og reynum að fá nóg af omega 3 fitusýrum, D-vítamíni, sínki, selen og B-vítamínum úr fæðunni.

Náum okkur í meiri sólarbirtu og reynum að fara út þegar það er sem bjartast yfir daginn.

Prófum ljósabox eða lampa sem líkja eftir náttúrulegu sólarljósi (10,000 lux styrkleiki) og örva framleiðslu serótóníns, en miðað er við a.m.k. 20 mín. notkun á dag, helst á morgnana. Fást í betri raftækjaverslunum.

Klæðumst bjartari og litríkari fötum og hleypum birtu og litum inn á heimili okkar og nánasta umhverfi.

Leitumst eftir því að gera meira af því sem gleður okkur og förum út á meðal fólks og verjum tíma með okkar nánustu og spornum gegn því að loka okkur af eða leggjast undir feld.

Nálastungur, jurtalyf og hugræn atferlismeðferð hafa reynst vel í sumum tilfellum.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir