Náttúrulegar sólarvarnir

Eins mikið og ég elska að vera í sólbaði þá er það alvitað að of mikið af sól getur verið skaðlegt heilsu okkar og hef ég því þurft að temja mér öruggari og hóflegri sólböð en ég gerði á árum áður. Þá var bara skellt á sig olíu og setið sem lengst án þess að pæla nokkuð í því hvort húðin væri að brenna og það þótti jafnvel bara flott ef maður væri vel brenndur eftir sólina.

Í dag er þetta öðruvísi farið og mælt með því að við förum gætilega þegar kemur að sólböðum þar sem húðkrabbamein hefur verið að aukast jafnt og þétt á Norðurlöndunum síðustu ár. Við þurfum vissulega á sólinni að halda til að framleiða D-vítamín, sem margir hverjir líða skort af og eins er sólin mikill gleðigjafi og geta flestir verið sammála um að hún beinlínis hressir, bætir og kætir. Þegar kemur að því að vera skynsamur í sólinni er mikilvægt að bera á sig vörn helst daglega með að lágmarki SPF 15 til að verja húðina gegn útfjólubláum geislum sólarinnar (UVA/UVB), sérstaklega ef þið ætlið að vera lengur í sólinni en 15-20 mín en það er talið í lagi að fá einhverja sólargeisla án varnar en þá í stuttan tíma. Mér finnst afar mikilvægt að við séum að bera efni á húðina sem eru að mestu náttúruleg og innihalda ekki toxísk efni né önnur aukaefni sem trufla starfsemi líkamans.

Ég myndi t.d. mæla með að þið athugið með sólarvarnir sem eru lífrænar eins og frá Lavera og Aubrey Organics sem fást í mismunandi styrkleikum og bæði til fyrir börn og fullorðna. Svo er gott að kæla húðina með lífrænu After sun kremi, kókósolíu eða lífrænu hreinu Aloe vera geli til að viðhalda rakanum í húðinni og græða hana eftir sólina. Vonandi fer sólin að láta sjá sig og þá getum við notið þess að vera úti í sólinni á öruggan og skynsaman hátt!
 

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.

www.facebook.com/grasalaeknir.is

www.pinterest.com/grasalaeknir