Möndluhveiti

Möndlur eru með hollari hnetum sem til eru og þykja afar bragðgóðar þar sem þær eru smá sætar á bragðið og með kremkenndum hnetukeim. Þær eru próteinríkar, trefjaríkar og innihalda lítið af kolvetnum en það er einmitt ein af ástæðunum fyrir vinsældum möndluhveitis undanfarið þar sem lág kolvetna mataræði þykir vinsælt um þessar mundir bæði hér á landi og erlendis. Við þurfum þó að sjálfsögðu ekki að vera á slíku mataræði ef okkur langar að nota möndluhveiti heldur er fjölbreytni alltaf af hinu góða þegar kemur að vali á góðu hráefni og möndluhveiti er mjög næringarríkt og inniheldur m.a. kalk, magnesíum, kopar, manganese og vel af E vítamíni. Möndluhveiti er í raun bara malaðar möndlur og sumir kjósa að búa sjálfir til möndluhveiti með því að mala þær í matvinnsluvél en þá ber að passa að mala þær ekki of lengi því þá verður þetta að möndlusmjöri. Möndluhveiti hentar t.d. vel þeim sem eru viðkvæmir fyrir glúteini og hentar vel í bakstur ýmiss konar og matargerð t.d. hægt að nota það sem rasp á fisk eða kjúkling, í kökur, vöfflur, brauð, skonsur, hrökkkex, o.fl. Ég nota möndluhveiti töluvert sjálf og hendi oft og reglulega í vöfflur, möndlupizzu, brauð og hrökkkex til að grípa í sem brauðmeti. Oft er notað kókóshveiti samhliða möndluhveiti í mörgum uppskriftum en það kemur mjög vel út að nota þessi tvö hráefni saman. Læt fylgja með góða uppskrift að vöfflum úr möndluhveiti en yfirleitt 2x ég þessa uppskrift til að eiga í kæli seinna og skelli í ristavélina eftir þörfum! Getið sleppt erythriol og vanillu ef þið viljið ekki hafa þær sætar og haft þær meira ‘plain’ til að nota sem hálfgert brauð með áleggi. Hræra saman og skella í vöfflujárnið og njóta!

Vöfflur (4-5 stk)
1 b möndluhveiti (t.d. frá Now)
1-2 tsk erythriol sætuefni
½ b kókósmjólk
1 tsk vanilludropar
½ tsk matarsódi
smá dash kanill ef vill
smá salt
2 egg


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir