Matjurtagarðurinn og grænir fingur!

Nú er ekki seinna en vænna en að byrja forrækta matjurtir og kryddjurtir svo plönturnar verða tilbúnar þegar fer að hlýna í lofti. Ég tók mig til í páskafríinu og byrjaði að sá fræjum en á hverju ári þá rækta ég fjölmargar tegundir af salati og grænmeti ásamt tengdapabba en við erum með gróðurhús og risastóran matjurtagarð rétt utan við bæjarmörk. Dæmi um salattegundir sem ég hef ræktað og sem okkur heimilisfólkinu þykja góðar eru t.d. grænkál, klettasalat, spínat, höfuðsalat, blaðsalat, íssalat, sinnepskál, mizuna salat o.fl. Grænmetistegundir sem við ræktum oftast eru gulrætur, kartöflur, brokkolí, hnúðkál, rauðrófur, radísur og blómkál. Höfum líka gert tilraunir með ýmsar aðrar tegundir eins og papriku, tómata og chili pipar en það er eitthvað sem maður þarf að kynna sér betur svo náist að rækta með tilætluðum árangri. Það jafnast ekkert á við það að geta farið út í garð og tínt sitt eigið heimaræktaða salat og grænmeti langt fram eftir hausti. Það er nefnilega svo einfalt að rækta sitt salat og grænmeti sjálfur og fyrir flest salat er nóg að setja plönturnar í potta út á svalir eða verönd, mikil búbót fyrir heimilið og mun bragðbetra og ferskara en fæst í búðunum. Það sem er framundan hjá mér sem snýr að matjurtagarðinum er að bæta næringu í garðinn og stinga hann upp þannig að hann verði tilbúinn fyrir plönturnar. Einnig þarf ég að huga vel að forræktuðu plöntunum þegar þær fara kíkja upp úr moldinni, vökva þær vel og hafa þær í hita og sólríkum glugga. Yfirleitt þá hef ég verið að setja forræktuðu plönturnar út í garð í lok maí eða fyrstu vikuna í júní. Svo bíður maður bara spenntur eftir að plönturnar fara spretta og gefa af sér salat á diskinn enda allra meina bót!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir