Magnesíum – Magnað steinefni

Magnesíum er steinefni sem sérhver fruma líkamans þarf á að halda en magnesíum tekur þátt í yfir 300 lífefnafræðilegum ferlum í líkamanum. Magnesíum er eitt af aðal efnunum sem líkaminn notar til að byggja upp og styrkja beinvef en magnesíum eykur upptöku kalks. Magnesíum tekur þátt í myndun próteina og hefur áhrif á orkulosun frá vöðvum líkamans. Magnesíum stuðlar að eðlilegri tauga- og vöðvastarfsemi og skiptir einnig máli við stjórnun á líkamshita og stöðugleika hjartans. Magnesíum er að finna í grænu laufgrænmeti eins og spínati, brokkolí, heilkorni, hnetum og þá sérstaklega möndlum, fræjum, baunum, þara og dökku súkkulaði. Vökvalosandi lyf, getnaðarvarnarlyf og áfengi eru gagnvirk magnesíumi. Skortseinkenni magnesíums eru sjaldgæf en lýsa sér fyrst og fremst í minnkaðri matarlyst, þunglyndi, vöðvasamdrættum og krömpum, óeðlilegum hjartslætti og skjálfta. Magnesíum er hægt að nota gegn mígreni, við háþrýstingi, gegn fyrirtíðaspennu, við fótapirringi, o.fl. Magnesíum er ýmist tekið í hylkjum, dufti eða fljótandi formi en einnig er hægt að nota magnesíum útvortis á liði og vöðva í spray- eða saltformi. Hér eru nokkrar fleiri ástæður fyrir því af hverju magnesíum er nauðsynlegt heilsu okkar.

Magnesíum er vöðvaslakandi steinefni og getur haft góð áhrif á svefn okkar. Sumir taka magnesíum á kvöldin fyrir svefn til að sofa betur.

Magnesíum hefur hægðaörvandi áhrif og gagnast því gegn hægðatregðu.

Magnesíum gagnast eymslum í vöðvum eftir áreynslu og hefur einnig áhrif á verki í einstaka tilfellum.

Magnesíum er gagnlegt fyrir astma þar sem það hefur vöðvaslakandi áhrif á lungun.


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir

www.facebook.com/grasalaeknir.is

www.pinterest.com/grasalaeknir