Kjötsúpa gefur kraft í kroppinn!

Þegar kuldinn fer að gera vart við sig sækjum við gjarnan meira í fæðu sem er orkurík og gefur hita í líkamann. Kjötsúpa er þjóðarsúpa okkar Íslendinga og stendur ávallt fyrir sínu en kjötsúpa er einmitt frábær leið til að koma meir af grænmeti ofan í mannskapinn og svo ekki sé talað um íslenska lambakjötið sem er mikilvægur þáttur í þessari kraftmiklu súpu. Það má leika sér með grænmeti að vild eftir smekk hvers og eins en algengt er að blanda saman blaðlauk, gulrótum, rófum, kartöflum og jafnvel sætum kartöflum. Ef okkur langar að vera enn þjóðlegri getum við bætt íslenskum jurtum út í súpuna eins og þurrkuðum hvannarfræjum, birki og blóðbergi en allar þessar jurtir eru ónæmisstyrkjandi og eru góð forvörn gegn kvefpestum. Læt fylgja með uppskrift að einfaldri og saðsamri kjötsúpu.
1,5 kg lambasúpukjöt
1 blaðlaukur saxaður
250 g gulrætur í bitum
1-2 msk súpujurtir
1-2 msk þurrkaðar jurtir ef vill
Smá sjávarsalt
2 L vatn
Smá pipar ef vill
1 stór rófa í bitum
½ sæt kartafla
3-4 kartöflur

-setja kjöt og vatn í pott og láta suðuna koma upp, lækka aðeins hitann

-fleyta ofan af og bæta grænmeti út í ásamt salti og súpujurtum

-láta malla saman undir loki í 45-60 mín eða þar til kjöt og grænmeti er orðið meyrt;)

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir