Karlmenn og heilsa

Þar sem nú er svokallaður „mottumars“ þá langar mig til að leggja áherslu á heilsu karlmanna og tileinka þeim þennan pistil. Mottumars stendur fyrir átak gegn krabbameini í karlmönnum en árlega greinast um 716 karlmenn með krabbamein og að meðaltali 278 karlmenn deyja árlega af völdum krabbameins. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að koma í veg fyrir að minnsta kosti 1 af hverjum 3 krabbameinstilfellum með breyttum lífsstíl. Þetta er því að mörgu leyti undir okkur sjálfum komið og þessir grunnþættir í daglegu lífi skipta sköpum þegar kemur að forvörn sjúkdóma, eins og að temja sér hollari fæðu og þá sérstaklega grænmeti og ávexti, temja sér að drekka vel af vatni, stunda reglulega hreyfingu og útiveru, draga úr streitu og ná góðri hvíld. Það er ekki að ástæðulausu að sífellt er verið að hamra á þessu hvarvetna en þessir þættir stuðla vissulega að bættu heilsufari og vellíðan. Sem dæmi þá innihalda grænmeti og ávextir ákveðin líffræðilega virk efni sem hafa sum hver öflug krabbameinshamlandi áhrif, s.s. virk efni í grænu te, brokkolí, dökkum berjum, turmerik, engifer, og sítrusávextir, o.fl. Tómatar hafa fengið sérstaka athygli í tengslum við blöðruhálskirtil en í tómötum er virkt efni lýkópen sem hefur verndandi áhrif gegn blöðruhálskirtilskrabbameini. Að sama skapi inniheldur hvítlaukur og grænt te efni sem eru verndandi gegn magakrabbameini. Nú er bara mál að skoða hjá sjálfum sér hvort það er eitthvað sem þið getið bætt varðandi daglegt mataræði og lífsstíl ykkar til hins betra og á heilsusamlegri hátt? T.d. með því að draga úr neyslu á kaffi? Minnka áfengi? Draga úr reykingum eða hætta að reykja? Draga úr neyslu á sykri, gosi, sætabrauði og sætindum? Mataræðið okkar hefur nefnilega svo mikið forvarnargildi gegn krabbameini og ýmsum sjúkdómum og því skiptir svo miklu að vanda valið hvaða fæðu við veljum fyrir líkamann okkar. Það getur verið gott að yfirfara hjá sér daglegt mynstur og sjá hverju er hægt að breyta til hins betra en einnig er mikilvægt að vera vakandi gagnvart óeðlilegum einkennum og ekki draga það til lengdar að láta athuga slík einkenni. Mataræðið okkar hefur nefnilega svo mikið forvarnargildi gegn krabbameini og ýmsum sjúkdómum og því skulum við vanda valið á hvaða fæðu við veljum fyrir líkamann okkar. Við fáum jú bara eitt eintak.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www. pinterest.com/grasalaeknir