Kanill - krydd fyrir heilsuna

Kanil þekkjum við flest sem krydd til að bragðbæta grautinn okkar en fæstir vita að kanill hefur verið notaður frá örófi alda víða um heim sem afar gagnleg lækningajurt gegn ýmsum kvillum. Síðustu árin hafa sífellt fleiri rannsóknir verið gerðar á kanil og notkun hans, byggð á aldagamalli þekkingu, staðfest. Kanill er talinn hafa margvísleg heilsubætandi áhrif á líkamann og þá sér í lagi fyrir fólk með áunna sykursýki og skert insúlínnæmni en kanill virðist koma jafnvægi á blóðsykur með því að auka framleiðslu insúlíns og með því að auka insúlínnæmni frumna.
Kanill hefur sýnt bakteríudrepandi virkni gegn ýmsum bakteríum, þar á meðal Helicobacter pylori magabakteríunni og einnig sveppadrepandi virkni gegn Candida albicans. Kanill hefur þar að auki krampastillandi áhrif á meltinguna, eykur blóðflæðið í líkamanum og getur hugsanlega lækkað LDL kólesteról og þríglýseríð. Kanill er líka talinn gagnlegur fyrir hormónakerfi kvenna og gegn kvefsýkingum. Vert er að nefna að fyrir þá sem eru á blóðsykurslækkandi lyfjum er vissara að ráðfæra sig við fagaðila ef viðkomandi notar kanil að staðaldri í einhverju magni þar sem hann getur aukið á áhrif slíkra lyfja. Þar sem kanill inniheldur fjölda virkra efna þá er ekki ráðlagt að börn noti kanil í of miklu magni. Fyrir okkur hina þá er upplagt að nota kanil sem hluta af fæðunni og njóta heilsubætandi eiginleika hans m.a. í hafragrautnum, í berjaboostinu, eftirréttum, út í heitt vatn sem te, o.fl.
Sætum tilveruna okkar með smá kanil!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir