Íslenskar gulrætur – Já takk!

Núna er alveg tíminn fyrir íslenskar gulrætur en þær eru nýkomnar í flestar matvörubúðir og eru ómótstæðilega góðar svona nýjar. Ég kaupi yfirleitt nokkra poka í einu því þær klárast svo fljótt á mínu heimili en þær eru svo góðar sem snakk milli mála eða sem nesti í skólann fyrir börnin. En þar sem það verður eflaust mikill gestagangur hjá mörgum um helgina hér í bæ þá langar mig að gefa ykkur æðislega uppskrift að vöfflum sem innihalda rifnar gulrætur og kemur skemmtilega á óvart, fyrir utan hvað þetta er mikil hollusta! Það er hægt að nota þessar vöfflur sem morgunmat eða millibita eða þegar gesti ber að. Mér finnst persónulega best að nota þær sem morgunmat til að fá smá tilbreytingu en þær eru trefjaríkar, próteinríkar og glúteinlausar.

Gulrótarvöfflur:

3 eggjahvítur (eða 2 egg)
1 tsk kókosolía (til að steikja)
1-2 msk kotasæla
½ b möndluhveiti
1-2 tsk vanillustevia
smá dass múskat
1 msk Husk trefjar
1 tsk kanill
1 rifin gulrót
½ tsk lyftiduft
2-3 msk möndlumjólk
(eða nota aðra mjólk)
2-3 msk grísk jógúrt (ofan á)


Blanda saman eggjum, kotasælu, möndluhveiti, kanil, múskat, stevíu, gulrót, Husk og mjólk.
Hella blöndunni á heita pönnu með kókosolíu.
Krem ofan á: blanda saman grísku jógúrtinni, hinni msk af kotasælu, smá kanil, og restinni af gulrót.


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir