Ískaffi með kanil og vanillu

Nýjasta æðið hjá mér þessa dagana er svalandi ískaffi en í gegnum tíðina hef ég gjarnan fengið mér koffínlaust kaffi á góðum degi. Ég er nefnilega alveg á því að kaffi er okkur hollt ef við kunnum að fara með það, þ.e. ef við notum það innan skynsamlegra marka og að mínu mati eru 1-3 bollar á dag ágætis viðmið en þannig fáum við góðu áhrifin af kaffinu án þess að ofgera taugakerfinu um of. Svo er alltaf hægt að velja koffínlaust en svo virðist sem ásókn í koffínlaust kaffi hefur aukist töluvert síðustu misseri. Heilsueflandi áhrif kaffis eru t.d. aukin orka, hraðari efnaskipti, aukið líkamlegt úthald og hugsanleg verndandi áhrif á lifrina.

Einnig gefa nokkrar rannsóknir vísbendingu um að kaffi geti virkað sem forvörn gegn Parkinson’s sjúkdómi, sykursýki týpu 2 og dregið úr depurð. Þess utan er kaffi talið auka langlífi og inniheldur mikið magn andoxunarefna og einhver næringarefni. Hins vegar getur vissulega langvarandi og of mikil kaffidrykkja hækkað blóðþrýsting, ýtt undir hitakóf og brjóstsviða og truflað svefnmynstur, en þarna gildir hófsemin og að kúnstin að njóta þess að drekka kaffi án þess að setja líkamsstarfssemina úr jafnvægi.

Espressoskot kalt (koffínlaust fyrir þá sem kjósa frekar)
1 ½ dl möndlumjólk t.d. Isola (eða önnur mjólk að eigin vali)
5 dropar English Toffee stevía frá Now
Kanill og vanilluduft ef vill
5-7 ísmolar

Öllu skellt í blandara og njóta!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir
www.instagram.com/asdisgrasa