Hvít lagkaka með súkkulaðikremi

Ég er í uppskriftagírnum þessa dagana eins og margar aðrar húsmæður og mig langar til að gefa ykkur uppskrift að ljósri lagköku með súkkulaðikremi á milli en þetta er kaka sem ömmur mínar langt aftur i móðurlegg hafa bakað árum saman fyrir jólin. Börnunum mínum finnst þessi kaka æði og nú er ég búin að setja hana í hollustubúning því það er svo notalegt að fá sér eina kökusneið. Það er frábært að halda í þessar gömlu fjölskylduhefðir síðan maður var að alast upp og bragðið vekur óneitanlega upp góðar æskuminningar. Gleðilegan jólabakstur!

Hvít lagkaka:

4 egg
250 g smjör
1 msk mjólk
1 tsk vanilluduft
260 g lífrænt heilhveiti
260 g Sukrin sykur
2 tsk vínsteinslyftiduft

Súkkulaðikrem:

1-2 egg
250 g smjör
2 msk kalt kaffi
2-3 vanilluduft
2 msk hreint kakóduft
500 g Sukrin melis flórsykur
200 g lífrænt 70% súkkulaði

Kakan. Smjör, egg og sykur þeytt vel saman. Þurrefnum blandað saman í sér skál og öllu svo hrært saman. Skiptið deiginu í 3 hluta og smyrjið út 1 hluta í einu á bökunarpappír á ofnplötu. Baka 1 ofnplötu í einu í ofninum. Bakið við 200°C í 10 mín.

Kremið. Smjör, egg og sykur þeytt vel saman, súkkulaði og kakó brætt saman við lágan hita. Rest af kremuppskrift bætt við og hrært vel saman við.  Kremi smurt á milli laga þannig að verði 3 lög af köku og kremi.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.

www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterset.com/grasalaeknir
www.instagram.com/asdisgrasa