Hvernig er heilsufar þitt?

Það getur verið gott að staldra reglulega við og spyrja sig að því hvort maður sé við góða heilsu líkamlega og andlega og hvað maður getur gert til þess að bæta heilsu sína. Hvernig er t.d. orkan mín yfir daginn? Sef ég vel? Er ég með góða og reglulega meltingu? Gríp ég gjarnan umgangspestir? Er ég í kjörþyngd? Kannski er kominn tími til að láta yfirfara heilsufar mitt og láta mæla m.a. blóðþrýsting, kólesteról og blóðsykur, o.s.frv. Er hugsanlega eitthvað sem ég er að gera daglega sem hefur áhrif á líðan mína sem ég get breytt til hins betra?

Heilsu- og forvarnarvikan er frábært verkefni sem ætti að vera hvatning fyrir okkur öll til þess að setja okkur markmið varðandi heilsu okkar og taka skref sem stuðla að bættri heilsu. Það gæti t.d. verið að ákveða að hreyfa sig 3svar sinnum í viku, prófa jógatíma eða hugleiðslu, fara fyrr að sofa, auka neyslu á ávöxtum og grænmeti, drekka meira vatn og margt fleira. Það er markvissara og sniðugt að gera vikuáætlun með gátlista yfir þau atriði sem þú vilt koma inn í daglegu rútínuna þína. Með því að tileinka okkur heilbrigðari venjur skref fyrir skref náum við að koma inn jávæðum lífsvenjum sem gefa okkur meiri vellíðan, hreysti og aukin lífsgæði. Settu heilsuna í forgang!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is