Hörfræ og samlokugrillið góða

Þar sem mér hefur lengi fundist vanta upp á góð gæði þegar kemur að brauðúrvali í matvörubúðum landsins, hef ég orðið að útbúa sjálf ýmsar útgáfur af hollara brauðmeti heima fyrir. Nú er nefnilega hægt að baka brauð, lummur, pönnslur og bakkelsi úr ýmsu nýstárlegu hollu hráefni eins og möndluhveiti, kókóshveiti, chia mjöli og hörfræjamjöli. Ég hef notað hörfræ í mörg ár og núna er ég farin að baka upp úr hörfræjamjöli hægri vinstri enda keyrir það upp hollustugildið í hvaða brauðmeti sem er. Hörfræ innihalda 3 afar mikilvæg efni fyrir heilsuna; hátt hlutfall omega 3 fitusýra (alpha-linolenic acid og linoleic acid), lignans plöntuefni og mikið af trefjum. Þessi svokölluðu lignans efni hafa jafnvægisstillandi áhrif á hormónakerfi kvenna með því að umbreyta óæskilegu formi af estrógeni í vægara form sem er heilsuvænna fyrir konur. Hörfræ eru talin hafa vernandi áhrif gegn ýmsum kvillum eins og háþrýstingi, hárri blóðfitu, offitu, hægðatregðu, sykursýki og hormónatengdum kvillum í konum og körlum (sérstaklega fyrirtíðarspennu, breytingaskeiði og blöðruhálskirtilsvandamálum). Hörfræ eru einstaklega góð fyrir meltinguna og hafa mild hægðalosandi áhrif. Það er því auðséð að hörfræ eru hin besta næring fyrir okkur og sniðugt að hafa þau inn í fæðunni okkar en til að ná að nýta næringu þeirra er ráðlagt að nota þau helst möluð en hægt er að mala þau í kaffikvörn, blandara eða kaupa þau tilbúin sem hörfræjarmjöl (flax seed meal). Svo er um að gera að strá þeim yfir hafragrautinn, ofan á grísku jógúrtina, út á salat, út í boostið eða baka upp úr þeim alls kyns brauðmeti. Það sem hefur slegið í gegn á mínu heimili er samlokubrauð úr hörfræjamjöli og því búið að gefa gamla samlokugrillinu nýtt gildi eftir langt hlé...

30 gr eða 1 dl hörfræjamjöl
(t.d. golden flax meal frá Now)
½ tsk psyllium husk duft
¼ tsk vínsteinslyftiduft
(½ tsk krydd að eigin vali ef vill)
2 msk vatn
Smá salt
1 egg

-öllu hrært saman í skál með gaffli
-sett í heitt samlokugrill og grillað í 4 mín (með skeið á milli til að leyfa lyftast)
-skera í tvennt og bæta hollu áleggi ofan á eins og pestó, avokadó, kotasælu, grænmeti, o.fl.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir