Hollari matarinnkaup

Góð næring byrjar með góðum ákvörðunum í matvörubúðinni. Ég hef orðið þess vör að sumir eiga stundum erfitt með að átta sig á hvað og hvar eigi að velja það sem er hollt í búðinni þegar verslað er í matinn. Ég hef reyndar í einstaka tilfellum farið með hópa af fólki í matvörubúðina og gefið þeim hugmyndir um hvaða fæðutegundir séu hollari kostur og það kemur fólki gjarnan á óvart að það er fullt af hollri fæðu á víð og dreif um búðina. Við erum stundum svo vanaföst þegar kemur að því að kaupa í matinn sem getur orðið til þess að við borðum einhæfa fæðu en fjölbreytileiki er svo gott krydd í tilveruna. Hvernig væri nú að prófa t.d. nýjan ávöxt eða nýtt grænmeti reglulega og prófa nýja uppskrift einu sinni í viku? Við sem neytendur þurfum að vera mun meðvitaðri um hvað ratar ofan í matarkörfuna okkar og vera vakandi fyrir því hvað er í matnum okkar. Hérna koma nokkur góð ráð sem stuðla að hollari matarinnkaupum.

Lesið innihaldslýsingar þegar við á. Ef listinn yfir innihaldsefni er langur er líklegt að varan sé töluvert unnin.

Reynið að sneiða hjá aukaefnum eins og gervisætuefnum (aspartame E651, acesulfame-K, MSG E321 eða monosodium glutamate og fleiri kemískum bragð- og litarefnum).

Reynum að velja fæðu sem er næst sínu náttúrulega formi og velja fjölbreytta fæðu úr sem flestum fæðuflokkum.

Dæmi um gott hráefni: grænmeti og ávextir, fræ, hnetur, baunir, gróft kornmeti, mjólkurvörur án viðbætts sykurs, egg, kjöt, fiskur, kjúkingur, hollar kaldpressaðar olíur.

Gott er eiga dósamat í hollari kantinum til að grípa í við matargerð eins og hakkaða tómata í dós, túnfisk, ólífur, sólþurrkaða tómata, kókósmjólk, o.fl.

Sniðugt að skipuleggja máltíðir fyrir vikuna, a.m.k. 5 fyrirfram ákveðnar máltíðir.

Gerðu lista yfir það sem þarf að kaupa og haltu þig við listann. Grænmeti og ávextir ættu að taka mesta plássið á listanum, munið 5-9 skammta á dag! Má líka nota frosna ávexti og grænmeti á móti fersku.
Svo má auðvitað þreifa sig áfram og nota stundum lífræna fæðu eins og hægt er og prófa t.d. ‘hollustu’ sætindi úr heilsudeildinni í stað hinna til tilbreytingar.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir