Heimaræktað grænmeti og kryddjurtir

Nú er vorið á næsta leiti og einmitt um þetta leyti byrja ég að sá fræjum fyrir grænmeti og kryddjurtum sem ég rækta ásamt tengdaforeldrum mínum í grænmetisgarðinum okkar hvert sumar. Mig langar að gefa ykkur nokkur gagnleg ráð til að einfalda ræktunina fyrir ykkur til að koma ykkur af stað. Að rækta sitt eigið grænmeti er svo gefandi og skemmtilegt fyrir utan hvað það bragðast miklu betur, er næringaríkara, fínasta útivera og auðvitað gott fyrir heilsuna! Garðyrkja er í raun andleg þerapía en maður nær að hreinsa hugann og komast í meiri tengingu við náttúruna með því að gramsa í moldinni og hlúa að plöntunum. Þetta er eitthvað sem allir geta gert eins lengi og þið eruð með gluggakistu sem snýr í suður, nokkra litla potta, mold, fræ og vatn. Þegar ég rækta kryddjurtir þá er ég yfirleitt með þær í glugganum í eldhúsinu til að hafa þær tiltækar í matreiðsluna og þær sem verða yfirleitt fyrir valinu og sem ég nota mest af eru basilíka, steinselja, kóríander og mynta. Grænmetið rækta ég hins vegar í stórum grænmetisgarði og þær tegundir sem ég rækta eru kartöflur, gulrætur, radísur, hnúðkál, rauðkál, brokkolí, rauðrófur, klettasalat, spínat, lollo rosso salat, romaine salat, mizuna salat, grænkál og fleiri tegundir af litríku salati. Ég byrja á að forrækta fræin í gróðurhúsi en það er vel hægt að gera það heima hjá sér líka. Hér koma nokkur góð ráð sem vonandi gagnast ykkur þegar þið ætlið að fara að sá fræjum og byrja ræktunina.

Passa að nota ekki of gömul fræ.

Þvo bakka og potta fyrir notkun.

Sáningartíminn er í kringum mars-apríl.

Nota litla ca 12 cm djúpa bakka með götum í botni og fylla af mold.
Strá 3-5 stk af fræjum ofan á moldina og setja glært plast yfir til að viðhalda raka. Gott að opna öðru hvoru til að láta lofta um. Plast tekið af þegar byrjar að spíra.
Hafa plöntur sem byrjaðar eru að spíra á mjög björtum og hlýjum stað (hitastig ca 18-22°C).

Nota úðabrúsa til að vökva og reyna halda góðum raka í moldinni.

Þegar 3-4 laufblöð hafa myndast er gott að fara gefa fljótandi áburð eins og Maxicrop, hafa vel útþynntan til að byrja með.

Fara varlega með plönturnar þegar maður umpottar þeim yfir í stærri potta.

Plönturnar settur út í garð eða potta þegar orðnar hæfilega stórar og harðgerðar og þá yfirleitt breiddur akríldúkur yfir eða plast til að mynda hita og sem vörn gegn kálflugunni. Sjálf setjum við plönturnar okkur út í garð í byrjun júní.

Það er líka hægt að kaupa forræktaðar plöntur á gróðrastöðum sem hægt er að setja beint út í stóra potta og hafa úti á palli, garðinum eða á svölum.


Gangi ykkur vel!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir