Heimagerð hollari páskaegg

Páskarnir eru framundan og margir farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar og komin tilhlökkun að langþráðu páskafríi, tilheyrandi veislumat og páskaeggjaáti. Það kann að vaxa fólki í augum að búa til sitt eigið páskaegg en það er í raun sáraeinfalt. Hægt er að kaupa páskaeggjaform í versluninni Pipar og salt á Klapparstíg og svo er bara að velja sér uppáhalds súkkulaðið sitt, auðvitað betra að velja lífrænt gæða dökkt súkkulaði, og hefjast svo handa. Svo má auðvitað útbúa sjálfur miða og skrifa falleg eða fyndin orð til sinna nánustu til að setja inn í eggin eða setja heilsunammi s.s. lífrænan lakkrís fyrir krakkana eða jafnvel lítið sniðugt dót inn í eggið. Tegundir af súkkulaði sem ég mæli með og sem hægt er að nota í páskaeggjagerð er t.d. Rapunzel, Viviani, Yogi te súkkulaði, Balance súkkulaði-línan o.fl. tegundir úr helstu heilsubúðum eða heilshornum (matvörubúðir). Það er sniðugt að prófa t.d. nýja tegund af súkkulaði eða blanda saman 2 eða 3 gerðum og fá skemmtilegt nýtt bragð.

Byrjað er á að bræða súkkulaðið við vægan hita yfir vatnsbaði og svo látið renna um og hylja formið, eða penslað í formið. Gott að gera 2-3 umferðir.

Eggið er því næst kælt í ísskáp eða frysti í um 10 mín. og ylurinn frá höndunum notaður til að losa eggið úr páskaeggjaforminu.

Næsta skref er að fylla eggið með hollu nammi og/eða málshætti og líma svo samskeytin með súkkulaðirönd (nota t.d. rjómasprautu).

Ef vill má skreyta eggið með gulri slaufu eða páskaskrauti.

Ef þið lendið í vandræðum er bara um að gera að bræða súkkulaðið á ný og gera aðra tilraun.

Það á ekki að þvo formin með sápu og helst ekki nota mikið vatn, heldur þurrka formin með eldhúsbréfi.

Gangi ykkur vel og gleðilega páska!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir