Heilsusamlegar jólagjafir

Nú styttist óðum í jólin og margir farnir að huga að jólagjöfum og fleiru tengt jólahaldinu og því langaði mig til að koma með sniðugar hugmyndir í jólapakkana sem allar hafa það sameiginlegt að tengjast heilsunni. Bækur falla yfirleitt vel í kramið hjá flestum en undanfarið hafa komið út margar mjög góðar bækur eins og Heilsuréttir fjölskyldunnar, Happ Happ Húrra, Eldað með Ebbu í Latabæ, Heilsusúpur og salöt eftir Auði Heilsukokk, Ljúfmeti og lækningajurtir, Eftirréttabók eftir Sollu Eiríks og Ung á öllum aldri eftir Guðrúnu Bergmann. Þarna er að finna ýmsan fróðleik og uppskriftir sem hvetja okkur til heilsusamlegri lífsstíls. Það er einnig sniðugt að velja saman nokkra hluti í litla bastkörfu eins og gott jurtate eða lífrænt kaffi, hollt súkkulaðikonfekt og lífræna heilsusafa. Lífrænar snyrti- og húðvörur koma að góðum notum og er vegleg gjöf. Svo er líka gaman að gefa heimagerðar hollar smákökur eða heimagert konfekt og setja í fallega krús og skreyta með slaufu. Það hefur líka tíðkast að gefa gjafakort í nuddi og spa eða öðrum heilsumeðferðum sem auka heilsu og vellíðan. Það er sem sagt úr ýmsu að velja ef þið viljið gleðja einhvern með heilsusamlegri jólagjöf

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir