Heilafóður

Heilinn okkar mótast af umhverfi sínu og þá fyrst og fremst af næringarefnum sem næra hann á hverjum degi. Heilinn þarf næringu til þess að viðhalda hámarks virkni og til þess að fyrirbyggja ótímabæra hrörnun. Heilinn mótast og þrífst einnig á andlegri og tilfinningalegri örvun, námi og nýjum verkefnum. Rannsóknir hafa sýnt að líkamsrækt bætir blóðflæði til heilans og eykur andlega virkni. Jákvætt viðhorf til lífsins dregur úr áhrifum streitu og hefur því góð áhrif á starfssemi heilans.

Nær öll næringarefni eru heilanum nauðsynleg en einna mest eru omega-3 fitusýrur úr fiski/lýsi sem auðvelda frumum heilans að koma áfram mikilvægum taugaboðefnum til þess að halda frumum lifandi og fullum af lífsþrótti. Einnig hafa omega-3 fitusýrur reynst efla orku heilans, minni og nám. Í fæðunni eru ýmis næringarefni sem eru talin sérstaklega góð fyrir heilann eins og bláber, spínat, feitur fiskur, hnetur og grænt te. Rannsóknir hafa sýnt að andoxunarefni eins og C vítamín, E vítamín og Q10 eru heilanum mikilvæg og geta hægt á hrörnun heilans. Efnið fosfólíserín og B vítamín eru talin gagnast vel gegn minnistapi. Þó nokkrar jurtir eru notaðar til þess að bæta virkni, auka blóðflæði til heilans og framleiðslu taugaboðefna en þar má helst nefna gingko biloba, burnirót, ginseng og ætihvönn. Við höfum sjálf í hendi okkar að velja fjölbreytta og næringarríka fæðu til þess að varðveita og efla heilsu og virkni heilans.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is