Grillaðir ávextir með hneturjóma

Hef verið að prófa mig áfram upp á síðkastið og bjóða upp á annars konar eftirrétt eftir grillmatinn og henda ávöxtum á grillið og þetta er bara alveg að gera sig satt best að segja. Ef þið hafið ekki prófað þetta nú þegar þá verðið þið endilega að prófa enda ofsalega ljúffengt. Engin stjörnuvísindi svo sem og þetta hefur nú verið gert í háa herrans tíð en þetta er svakalega einfaldur eftirréttur sem svalar algjörlega sætuþörfinni og eitthvað sem maður vippar á núll einni þegar fólkinu manns langar í eitthvað gott eftir matinn.

Ávextir sem henta vel á grillið eru t.d. ferskjur, plómur, nektarínur, perur, epli og ananas. Gott er að skera ávextina í helming og pensla með smá kókósolíu áður en skellt beint á grillið. Ég bý til sætan hneturjóma til að hafa með þessu og toppa þetta svo með ristuðum kókósflögum. Ómótstæðilega gott og ég hvet ykkur til að prófa ykkur áfram með mismunandi ávexti og vekur þetta lukku í grillveislunum hjá ykkur í sumar;)

Sætur hneturjómi:

½ b kasjúhnetur
¼ b makademíuhnetur
½ dós kókósmjólk
3 steinlausar döðlur
Smá dass sjávarsalt
1 tsk vanilluduft


Skellið öllu í blandara eða matvinnsluvél og geymið í kæli í smá stund áður en borið fram. Ég nota lífrænu kókósmjólkina frá COOP en hún er svo einstaklega rjómakennd og silkimjúk. Setjið 1-2 msk af hneturjómanum á grillaða ávexti og stráið ristuðum kókósflögum yfir.  


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.

www.grasalaeknir.is
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.instagram.com/asdisgrasa