Grænn og vænn hristingur!

Okkur er ráðlagt að borða a.m.k. 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag samkvæmt ráðleggingum frá Lýðheilsustöð og hvað er betra en að nota gómsæta hristinga stútfulla af næringu til þess að uppfylla dagsþörfinni. Auðvitað reynum við líka að vera dugleg að borða grænmeti og ávexti jafnt og þétt yfir daginn í öðru formi eins og súpum, salati, niðurskorið sem snakk, sem álegg, o.fl. Grænir hristingar eru hins vegar góð aðferð til þess að ná inn grænu grænmeti sem maður annars myndi kannski ekki borða og fínt þegar maður er að byrja að hafa hlutföllin 50/50 grænmeti á móti ávöxtum og auka svo hluta grænmetis smám saman. Hægt er að bæta og breyta þeim að vild og gott er t.d. að leggja möndlur í bleyti yfir nótt og setja 2 msk af möndlum út í morgunhristinginn eða setja avokadó út í, gefur meiri fyllingu. Fleiri hugmyndir til þess að fá annað bragð og önnur næringarefni gætu verið t.d. að nota fræ, vanilluduft, klettasalat, steinselja, kókósvatn, döðlur, grænt te í dufti, o.fl. Frábær leið til að bæta heilsuna okkar og auka inntöku okkar á grænmeti.

2 b vatn

2 b spínat

½ agúrka

½ grænt epli

1 b frosið mangó

1 appelsína

Smá engiferbiti

-Allt sett í blandara, bæta vökva ef þörf.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.