Glúteinlaust og próteinríkt brauð

Ég hef orðið vitni að því undanfarið að það er nokkuð um að fólk sé að prófa ýmsar  útfærslur af lág-kolvetna mataræði en á slíku mataræði er venjulegt brauð yfirleitt ekki á boðstólum og flest kolvetni í lágmarki. Sjálfri finnst mér gott að geta fengið mér saðsamt brauð með góðu áleggi við og við en finnst hins vegar vanta verulega upp á úrvalið af góðu brauðmeti sem er laust við ger, hveiti og aukaefni. Ég mæli oft með að fólk prófi súrdeigsbrauð og reyni að velja grófustu brauðin en algengt er að fólk sé að borða of mikið af ger/hveitibrauði. Hér er uppskrift að mjög góðu brauði sem hentar fyrir okkur öll en sérstaklega fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir glúteini eða vilja breyta til og prófa öðruvísi útgáfu af brauði.
Paleo Brauð:
1 ½ b möndluhveiti
2 msk kókóshveiti
¼ b  möluð ljós hörfræ
¼ tsk sjávarsalt
1 ½ tsk matarsóda
1/4 b kókósolía
1 msk hunang
1 msk eplaedik
5 egg

Setjið möndluhveiti, kókóshveiti, salt, hörfræ og matarsóda í matvinnsluvél og blandið saman.

Bætið við eggjum, olíu, ediki og hunangi og látið hrærast saman.

Smyrjið brauðform eða setjið bökunarpappír ofan í og hellið deiginu í

Bakið við í 175°C í 40 mín.
Kæla og borða!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir