Fótapirringur – Hvað er hægt að gera?

Fótapirringur eða fótaóeirð eins og það er gjarnan kallað getur verið ansi hvimleiður kvilli sem reynist  mörgum lýjandi til lengdar en helstu afleiðingar þess eru svefnleysi og þreyta. Fótapirringur lýsir sér þannig að það er ónótatilfinning í fótleggjum og  einkum kálfum þannig að viðkomandi á erfitt með að vera kyrr. Einkennin eru mest áberandi þegar viðkomandi leggst til hvíldar og stundum getur það hjálpað að sparka eða hrista fæturna. Fólk lýsir fótapirringi gjarnan þannig að það sé eins og kláði í vöðvunum sem maður getur ekki klórað´. Fótapirringur getur verið fylgikvilli sjúkdóma eins og sykursýki, vefjagigt og nýrnabilunar en er einnig algengt á meðgöngu, sem afleiðing af járnskorti og sem aukaverkun af ýmsum lyfjum. Koffín, steita og mikil sykurneysla virðast gera einkennin verri en ennþá hefur ekki fundist nein orsök né nægilega sterk lyf sem vinna á fótapirringi. Hins vegar eru nokkrar ráðleggingar sem geta hjálpað til að draga úr einkennum og sem ég hef sjálf orðið vitni að að gera fólki talsvert gagn.

Heitt bað með epsom salti

Auka fæðu sem inniheldur magnesíum eins og möndlur, spínat og fræ eða taka inn magnsesíum duft í vatn fyrir svefn

Nota kælandi fótakrem sem inniheldur piparmyntu ilmkjarnaolíu (þarf að vera sterkt)

Fara reglulega í fótanudd

Setja 1-2 tsk af molassa út í heitt vatn og drekka fyrir svefn en molassi er ríkur af járni og B-vítamínum sem eru talin gagnleg

Fá sérblandaða róandi og vöðvaslakandi blöndu hjá grasalækni

Prófa nálastungulækningar en þær hafa reynst sumum vel í þessu tilfelli

Draga úr eða jafnvel sleppa tímabundið koffíni (kaffi, te, súkkulaði, gos) og sykri


Ná tökum á streitunni og finna leiðir sem stuðla að vöðvaslökun

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir