Fimm mikilvæg næringarefni fyrir heilbrigt hjarta

Vissuð þið að hjartað slær að meðaltali 72 sinnum á mínútu í fullorðnum einstaklingi, 100.000 sinnum á dag, 3.600.000 sinnum á ári og 2,5 billjón sinnum yfir ævina? Hjarta- og æðasjúkdómar eru einn af algengustu sjúkdómum sem valda dauðsföllum sem í sumum tilfellum mætti fyrirbyggja með heilbrigðari lífsvenjum. Hér koma nokkur vel valin næringarefni sem styðja við heilbrigða starfsemi hjartans.

Omega 3 fitusýrur
Lax, lúða, sardínur eru góð uppspretta omega 3 fitusýra en þessar fitusýrur styrkja hjartað með því að draga úr bólgumyndun, hafa blóðþynnandi áhrif og hjálpa til við að viðhalda eðlilegum blóðþrýstingi og kólesterólgildum.

Polyphenols
Bláber, hindber og jarðarber gefa okkur polyphenol efni en þetta eru plöntuefni sem gefa berjum dökkan lit sinn. Þessi efni auka framleiðslu á nitríðoxíð í líkamanum sem hefur æðaútvíkkandi og slakandi áhrif á æðaveggi og lækka þannig blóðþrýsting.

Fólínsýra
Grænt laufgrænmeti, s.s. spínat og grænkál, innihalda hátt hlutfall af fólínsýru, sem sér til þess að viðhalda amínósýrunni homocysteine innan marka. Lægra gildi af homocysteine dregur úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.

Q10 (coenzyme Q10)
Sardínur og makríll innihalda Q10 en stundum þarf að taka Q10 inn í bætiefnaformi þar sem það getur reynst erfitt að ná því úr fæðunni. Q10 er sterkt andoxunarefni og orkumyndandi efni fyrir allar frumur líkamans. Mesta hlutfall af Q10 er að finna í hjartanu í líkamanum en Q10 er afar mikilvægt efni fyrir hjartað.

Magnesíum
Valhnetur, möndlur og spínat innihalda ríkulegt magn af magnesíum. Hvert einasta líffæri okkar og sérstaklega hjartað þarf magnesíum til að starfa eðlilega, en magnesíum er m.a. nauðsynlegt fyrir eðlilegan hjartslátt.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir