Burt með sykurpúkann!

Sennilega ertu búin að borða aðeins of mikið af sykri síðustu vikur og þarft að hafa helling fyrir því að komast í gegnum daginn án þess að freistast í leyfarnar af konfektinu eða sætmeti hér og þar. Óstjórnleg sykurlöngun er eitthvað sem margir glíma við daglega en það er mikilvægt fyrir heilsu okkar að hafa þetta í jafnvægi og láta ekki einhver vanabindandi efni stjórna líðan okkar. Vissulega allt í góðu að fá sér eitthvað sætt við og við svona á tyllidögum en nú er það bara harkan sex og eina vitið að koma líkamanum aftur í jafnvægi eftir allt sykurátið. Hér eru nokkrar leiðir til að komast út úr sykurvítahringnum svo þú getir átt sætari ár framundan;)

• Byrjaðu daginn á próteinríkri máltíð með góðri fitu. T.d. eggjahræru með kókósolíu eða ólífuolíu, eða næringarríkan hristing.
• Borðaðu reglulega yfir daginn. Ég veit þú veist þetta en það skiptir bara svo miklu máli að hafa þetta á tæru upp á að halda orku og blóðsykri stöðugum. Hentar mörgum að hafa 3 aðal máltíðir og 2 holla millibita.
• Bættu í fæðuna þína heilnæmum kryddum sem slá á sykurlöngun og gefa náttúrulega sætu eins og kanil, kardimommur, múskat, negul og vanillu.
• Hreyfðu þig! Hvaða hreyfing sem er mun auka orkuna þína, minnka streitu og draga úr löngun
í sætindi.
• Núllstilltu líkamann með nokkra daga hreinsun á léttu, hreinu og fersku mataræði.
• Passaðu upp á að fá nægileg vítamín hvort heldur  úr fæðunni eða í formi bætiefna eins og omega 3 fitur, fjölvítamín/steinefni, D3 vítamín. Annað sem er gott til að stilla blóðsykur og sykurlöngun er t.d. króm, grænt te, magnesíum, spirulina, lakkrísrótar tuggutöflur (DGL) og trefjar eins og husk.
•Fáðu nægilegan svefn en þegar við erum vansvefta eykst löngun okkar í sætindi og kolvetni.
• Ekki skipta yfir í gervisætuefni eins og aspartam og acesulfame-k heldur notaðu frekar lágkolvetna sætu efni eins og xylitol, erythriol, stevíu og súkkulaði sætt með maltitoli.
• Þegar sykurlöngunin gerir vart við sig, gríptu þá epli með lífrænu hnetusmjöri eða fáðu þér t.d. nokkrar hnetur og 1-2 döðlur. Lífrænt dökkt 70-85% súkkulaði er líka gott svona spari til að slá á sykurlöngunina.
• Lærðu að lesa utan á pakkningar til að sniðganga inntöku á földum sykri.
• Finndu út hvað veldur þessari viðvarandi sykur löngun hjá þér og taktu skref í að vinna í sjálfri/sjálfum þér ef orsökin er tilfinningalegs eðlis.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir