Blóðberg gott við ýmsum kvillum

Uppskrift af blóðbergshunangi

Nú er blóðbergið víðast hvar í blóma og skartar skærfjólubleikum blómum og því rétti tínslutíminn til að ná sér í blóðberg. Blóðbergið (Thymus praecox) er mjög algeng jurt sem vex víða í móa og á melum um allt land. Jurtin er öll nýtt nema rótin þannig að maður klippir yfirleitt alla jurtina og skilur eftir rótina. Svo lætur maður jurtina þurrkast í nokkra daga og þarnæst er hún sett í krukku og merkt til að nota yfir veturinn. Blóðbergið inniheldur fjölmargar virkar ilmkjarnaolíur og hátt hlutfall andoxunarefna. Það ættu allir að eiga þurrkað blóðberg uppi í skáp til að grípa í, ýmist til að sáldra yfir lambakjötið eða fá sér blóðbergste þegar kvefpestir gera vart við sig.

Áhrif blóðbergs eru margvísleg en blóðberg er mjög gjarnan notað gegn öndunarfærasýkingum eins og kvefi, ennis- og kinnholusýkingum, slímkenndum hósta og einnig astma. Blóðbergið er einnig sýkladrepandi og hefur áhrif á ýmsar örverur, þ.m.t. bakteríur, sveppi og vírusa en það er gjarnan notað gegn sveppasýkingum. Blóðbergið er einnig krampastillandi og vindeyðandi og því notað gegn magakveisum, vindgangi og uppþembu. Það er mjög auðvelt að tína blóðberg og nota það en algengast er að fólk helli sér upp á te og noti það þannig. Þá er gjarnan sett 1 tsk til 1 msk af blóðbergi í 1 bolla af soðnu vatni, látið trekkja sig í 10-20 mín og sigtað frá. Ef leitast er eftir meiri áhrifum þá eru 3 bollar á dag (3 msk í 1 L soðið vatn) góður meðferðarskammtur.

Blóðbergshunang:

1 hnefi blóðberg
1 krukka lífrænt hunang
1 tóm krukka

Klippið eða saxið blóðbergið niður í smærri einingar.
Setjið blóðbergið í krukku og hellið hunangi yfir þannig að fljóti vel yfir blóðbergið. Gæti verið gott að velgja hunangið aðeins áður svo það verði fljótandi. Þegar þið hafið blandað þessu tvennu saman er sett lok á krukkuna og hún látin standa í 1 viku við stofuhita.
Sigtið blóðbergið frá og þá er hunangið tilbúið stútfullt af virkum efnum úr blóðberginu. Takið 1 tsk. 1-3svar á dag eftir þörfum. Geymist í 6-9 mánuði í ísskáp.


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir
www.facebook.is/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir