Bleikur heilsudrykkur og heilsa kvenna

Mig langar að helga þessum pistli konum en bleiki liturinn er alls ráðandi núna í október vegna árvekni og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins Bleika slaufan, sem er tákn í baráttunni gegn krabbameini í konum. Á hverju ári greinast að meðaltali 700 íslenskar konur með krabbamein og markmið Krabbameinsfélagsins er að bæta lífsgæði og lífslíkur þessara kvenna með sölu á Bleiku slaufunni. Við konur þurfum að vera duglegar að fylgjast með heilsu okkar og fara reglulega í eftirlit og lifa heilsusamlegu lífi eins og best er á kosið. Þó svo að genin okkar ráði einhverju um áhættu okkar gegn ákveðnum krabbameinum þá er þáttur okkar sjálfra mjög stór og þær lífsvenjur sem við temjum okkur í daglega lífinu.

Eitt er víst að ríkuleg inntaka á grænmeti og ávöxtum getur haft fyrirbyggjandi áhrif gegn ýmsum tegundum af krabbameini, eins hafa fundist efni í grænu tei, engifer, granateplum, turmerik, þangi, brokkolí, bláberjum, tómötum, ætihvönn og fleiri náttúrulegum hráefnum sem verja frumur okkar gegn krabbameinsmyndun. Að auki hefur streita og hreyfing vissulega áhrif og viðhorf okkar til lífsins almennt. Læt fylgja með uppskrift að vernandi og heilsueflandi boosti fyrir okkur konur en granatepli eru sérstaklega góð fyrir hormónakerfi kvenna og innihalda einnig verndandi efni fyrir ónæmiskerfið. 

Bleikur heilsudrykkur:

½ b granatepli (pomegranate)
250 ml möndlumjólk/vatn
1 b frosin hindber
smá cayenne pipar
½ avókadó
smá kanill

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir