Ásdís grasa: Særindi í hálsi – náttúruleg ráð

Særindi í hálsi er verkur í hálsi sem orsakast oftast nær af bakteríu- eða veirusýkingum. Oftar en ekki eru það streptokokka bakteríur sem valda særindi í hálsi en hefðbundin hálsbólga er þó alltaf veirusýking. Ofnæmi, mengun og þurrkur í hálsi geta líka valdið særindi í hálsi. Særindi í hálsi getur líka gefið til kynna að kvef- eða flensusýking sé í vændum. Hér eru nokkur ráð til að slá á særindi í hálsi.

Mikilvægt að drekka nægt vatn til að halda slímhúð í hálsi mjúkri. Saltvatn er líka gott og þá er ½ tsk af sjávarsalti blandað út í 1 stórt glas af heitu/volgu vatni.

Eplaedik, engifer og sítróna efla ónæmiskerfið.

Manuka hunang er mýkjandi og bakteríudrepandi og gott að blanda út í heitt vatn eða te.

Sínk, C vítamín, D vítamín, fjölvítamín, lýsi og góðgerlar eru styrkjandi fyrir ónæmiskerfið og eru gagnleg til að vinna á sýkingum.

Lakkrísrót, regnálmur, salvía og fjallagrös eru kröftugar jurtir sem eru mýkjandi, sýkladrepandi og græðandi fyrir slímhúð í hálsi. Lakkrísrót er hægt að fá í te, dufti, sprayformi (throat spray) eða tuggutöflum (heitir DGL). Regnálmur fæst í dufti hjá grasalækni og salvíute er hægt að kaupa í heilsubúðum og fjallagrös fást mjög víða í formi hóstasíróps eða í teformi.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að fá góðan endurnærandi svefn en það er eitt besta ráðið fyrir skjótum bata!

Heilsukveðja,
Ásdís grasalæknir.

www.facebook.com/grasalaeknir.is

www.pinterest.com/grasalaeknir

www.instagram.com/asdisgrasa