Á krydduðum nótum

Líflegar kryddjurtir í eldhúsglugganum gefa góðan ilm í húsið og lífga upp á mataræðið hjá okkur. Sumardagurinn fyrsti er framundan og ekki seinna en vænna að fara að byrja ræktunina og sá fræjum. Kryddjurtir eru auðveldar í ræktun og mikil ánægja fylgir því að rækta sitt eigið krydd og grænmeti. Þær þurfa góða birtu, næringarríka mold, góðan áburð í byrjun og reglulega vökvun.

Gott er að verða sér úti um frekari ráðleggingar um ræktun kryddjurta ef þið eruð að prófa í fyrsta sinn. Algengar kryddjurtir sem gott er að eiga í eldhúsglugganum eða úti á palli í pottum eru t.d. steinselja, basil, oreganó, kóríander, rósmarín og piparmynta. Kryddjurtir eru ekki aðeins góðar á bragðið heldur eru þær allar virkar lækningajurtir og auka þar með hollustugildi matarins og heilbrigði okkar. Rannsóknir á kryddjurtum hafa leitt í ljós að margar tegundir kryddjurta innihalda svokölluð jurtanæringarefni sem eru fyrirbyggjandi gegn ýmsum sjúkdómum.

Kryddjurtir má nota á marga vegu í matargerð en einnig má búa til te úr ferskum kryddjurtum en þá er sett 1 msk af kryddjurt í 1 b af soðnu vatni og látið trekkja í 10-15 mín. Piparmynta, salvía og sítrónumelissa henta vel í te. Piparmynta hefur góð áhrif á meltinguna og er er góð gegn ristilkrampa. Salvía getur slegið á hitakóf hjá konum og þá þarf að drekka hana reglulega yfir daginn eða um 2-3 b á dag. Sítrónumelissa er vægt róandi og hentar því vel við streitu og spennu í líkamanum. Kryddum tilveruna okkar með bragðgóðum kryddjurtum og njótum heilsubætandi áhrifa þeirra.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is