Úff, hvaða lykt er þetta...

Hefur þú einhvern tímann lent í því að þurfa að nota almenningssalerni og þegar þú kemur inn á það er lyktin svo vond að þig langar helst til að hætta við - en þú bara getur það ekki? Hvað gerist, jú þú notar klósettið og þegar þú ferð út af því nokkrum mínútum síðar þá er lyktin ekki nærri því eins slæm og hún var í fyrstu. Hvernig stendur á því - jú þú ert búin að venjast henni. Ef þú værir nógu lengi inni á salerninu væri ekki ólíklegt að þú hættir algjörlega að finna fýluna!

Lífið er nefnilega svolítið þannig að við venjumst aðstæðum okkar fljótt. Ég hef oft lent í því að vera í ákveðnum neikvæðum aðstæðum og þrátt fyrir að finnast það ómögulegt í fyrstu þá minnka þau  áhrif og áður en langt um líður finnst mér aðstæðurnar þær eðlilegustu í heimi.  Ég hef þá snúist á sveif með þeim neikvæðu, hef allt á hornum mér, já fæ jafnvel horn og hala, og finn ekki ,,skítalyktina“ þrátt fyrir að flugurnar detti dauðar niður allt í kringum mig. Ég er ótrúlega ósátt við sjálfa mig þegar ég leyfi þessu að gerast  og hef reynt að átta mig á hvenær  neikvæðnin er að ná tökum á mér, svo ég dragist ekki inn í aðstæður jafnvel án þess að taka eftir því og sitja svo eftir með ,,fýluna“ fasta í fötunum.

Það getur verið mjög jákvætt að vera sveigjanlegur og aðlagast aðstæðum hratt en verra er þegar aðstæðurnar eru ekki góðar fyrir okkur. Ef við verjum miklum tíma með fólki sem er neikvætt förum við jafnvel að vera neikvæð sjálf.  Ef við erum mikið í kringum fólk sem þrífst á reiði er ekki ólíklegt að við förum smám saman að nota  reiði sem aðal hvata okkar og ef við erum alltaf í kringum aðila sem slúðra gæti okkur farið að finnast það hinn eðlilegasti hlutur. Við höfum örugglega flest tekið þátt í slúðri og óhróðri sem við erum ekki hreykin af og jafnvel gengið svo langt að kalla það ,,heilbrigð“ skoðanaskipti. Þessar ,,skoðanir“ geta verið á þann hátt að einstaklingar eru nánast teknir af lífi af formlegum og óformlegum fjölmiðlum, vinnustöðum, klúbbum, pólitískum andstæðingum, dómstólum götunnar o.fl.  Svo tekur maður þátt í þessu skítkasti og lyktin stundum orðin þannig að það ætti að vera ógerningur að ná andanum,  en allir löngu hættir að taka eftir slíku og réttlætingin allsráðandi um að þessum eða hinum sé bara nær (að vera sá einstaklingur sem hann er).  Það er eitt að dæma gjörðir fólks, allt annað að taka persónuna og jafnvel hennar nánustu fjölskyldu fyrir.

Að sama skapi hafa jákvæðni og bjartsýni áhrif á okkur í hina áttina og við getum haft þannig áhrif á aðra. Ábyrgð er mikilvægt hugtak í umræðu um samskipti en okkur hefur fyrst og fremst verið kennt að hugsa um ábyrgð gagnvart öðrum. En sú ábyrgð sem við berum á eigin lífi og hamingju vill gleymast. Sá sem ber ábyrgð á eigin lífi fullnægir þörfum sínum án þess að taka þann rétt af öðrum og hann kennir ekki öðrum um það sem hann er, gerir, fær eða finnur.  Sá einstaklingur ber ábyrgð á orðum sínum, hugsunum og gjörðum og þrátt fyrir að aðrir kunni að hafa áhrif á viðkomandi er það einstaklingurinn sjálfur sem velur hvort hann tekur þau áhrif til greina eða ekki.

Þurfum öll að vera meðvituð um hvenær það fer að lykta illa í kringum okkur og hvað við ætlum að gera í því. Er alveg ákveðin í því að næst þegar ég er í spreng og ekkert í boði nema illa lyktandi salerni ætla ég að halda í mér í þeirri von að eitthvað betra leynist hinum megin við hornið. En áður mun ég stinga hausnum inn um gættina á illa lyktandi salerninu og kalla hátt og skýrt: kæru klósettgestir, það er ótrúlega vond lykt hér inni og ef þið staldrið við of lengi þá venjist þið henni - og hver vill það. Ekki ég svo mikið er víst, svo verið þið blessuð!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
www.facebook.com/Hamingjuhornid