Trúi því þegar ég sé það - sé það þegar ég trúi því!

Hamingjuhorn Önnu Lóu

Hún var nýr kennari í skólanum og var spennt að takast á við verkefnið sem beið hennar. Skólastjórinn sagðist vera þakklátur fyrir að hafa fengið hana í skólann en hún hafi verið valin úr hópi fjölda umsækjenda. Hann sagðist bera miklar væntingar til hennar og meðmælin með henni væru þannig að það væri ljóst að hún væri afburða kennari. Þess vegna hefði hann tekið þá ákvörðun að hún fengi að kenna sérstökum bekk á miðstigi en þar væri um að ræða afburða greinda nemendur sem biðu eftir að fá að blómstra en fram að þessu hefðu þau ekki fengið nógu krefjandi verkefni. Hann sagðist binda miklar vonir við að hún væri einmitt rétti kennarinn fyrir þau.

Hún byrjaði kennsluna full af áhuga og fann strax að skólastjórinn hafði ekki farið með neinar ýkjur, nemendurnir óvenju áhugasamir og hún naut þess að leggja fyrir þau verkefni sem nærði þau á margvíslegan hátt og þau blómstruðu hver á sínu sviði og hún upplifði draumastöðu hvers kennara - áhugasama og virka nemendur.

Þegar veturinn var hálfnaður kallaði skólastjórinn hana á sinn fund. Hann þakkaði henni fyrir frábært starf með bekknum og sagði að árangurinn væri ljós. Þau höfðu hækkað að meðaltali um tvo heila í einkunn en fyrir utan það væru þau greinilega að blómstra sem einstaklingar og nýta styrkleika sína til fullnustu. Hún gæti verið stolt af starfi sínu.

Hún þakkaði hrósið en sagði að auðvita væri ekki hægt að loka augunum fyrir því að hún var með afburða nemendur sem hefðu gert vinnu hennar, jú krefjandi, en miklu skemmtilegri. Þetta væri því samspil margra jákvæðra þátta.

Skólastjórinn tilkynnti henni þarna að hún væri þátttakandi  í rannsókn sem væri í gangi - verið væri að skoða hvort væntingar kennara til nemenda sinna hefðu áhrif á námsárangur þeirra og væntingar til kennara sömuleiðis. Þrátt fyrir að hún væri góður kennari hefði hún verið valin handahófskennt í þetta verkefni og bekkurinn hennar væri ekki afburða nemendur heldur meðal hópur þar sem getuskipting væri svipuð og annars staðar. Góðu fréttirnar væru þær að með því að hafa jákvæðar væntingar til nemenda sinna hafi hún vakið hjá þeim áhuga, dregið fram styrkleika þeirra og gert þeim kleift að byggja ofan á þá. Með því að auka sjálfstraust þeirra og trúna á sjálfan sig hafi henni tekist að skapa þeim fyrirmyndar lærdómssamfélag sem  gerði þeim fært að skara fram úr. Á sama hátt hefðu væntingar til hennar sem kennara haft jákvæð áhrif og hún hefði því sýnt fram á að hún væri kennari sem legði ekki bara áherslu á bóklega þáttinn heldur eflt þá færni sem felst í því að vera meira maður og þar væri hún mikilvægasta fyrirmyndin.

Rannsóknir sem þessar hafa verið gerðar og ofangreind frásögn hefur setið í mér frá því að ég heyrði hana fyrst í kennaranáminu. En það eru ekki bara væntingar kennara til nemenda sinna sem skipta máli því væntingar okkar allra til hinna ýmsu þátta í lífinu skipta miklu máli. Skólinn, sem gengur meira eða minna út á samskipti, ætti að endurspegla það samfélag sem við búum í hverju sinni. Við sem einstaklingar höfum áhrif á það samfélag og það svo á okkur til baka.
Við erum dugleg að búa til jákvæðar væntingar  fyrir ferðamenn, varðandi land og þjóð en erum við nógu dugleg að selja okkur sjálfum slíkar hugmyndir?  Ef við höfum jákvæðar væntingar um að hér sé gott að búa erum við að skapa jákvætt viðhorf hjá okkur sjálfum á sama tíma og við sendum þau skilaboð líka frá okkur. Það gæti verið gott að spyrja sjálfan sig eftirfarandi spurninga:  Er ég meðvituð um þá orku sem fylgir orðum mínum? Sendi ég hlýja strauma og læt uppbyggileg orð falla um samferðafólk mitt í lífinu? Hvernig tala ég um vinnustaðinn minn, bæinn minn, landið mitt? Geri ég ráð fyrir að allir í kringum mig séu að gera sitt besta eða er ég upptekin af því að í lífi mínu sé allt að fara á versta veg og ekki verði við neitt ráðið?
Trúi ég á fegurðina í lífinu þegar ég sé hana eða sé ég fegurðina í lífinu þegar ég trúi á hana!!
Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid