Þú skalt fá þínar furuhnetur!

Þetta var fyrir u.þ.b. 10 árum síðan. Ég var á námskeiði í Bandaríkjunum hjá alveg hreint frábærri konu sem vann við uppeldis- og fræðslumál og var mér mikilvæg fyrirmynd og mentor. Hún hafði skrifað bækur sem ég hafði lesið af miklum áhuga þar sem henni var tíðrætt um hversu mikið sjálfstraust stýrir í lífi okkar. Á námskeiðinu voru konur bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum, vel menntaðar konur sem voru búnar að framkvæma ótrúlegustu hluti og mér fannst ég lítið peð í þessum hópi og sjálfstraustið ekki upp á marga fiska. Við borðuðum alltaf saman í hádeginu og völdum á sameiginlegt borð, sögðum hvað okkur langaði í og síðan fór starfsmaður út og verslaði. Þegar við völdum okkur mat vildi ég ekki vera með neitt vesen og þegar mig langaði í sushi einn daginn og einhver setti upp svip og sagðist ekki borða hráan fisk, bakkaði ég fljótt og sagði: mér er alveg sama hvað ég borða. Það liðu þrír dagar og ég endaði yfirleitt á því að segja: mér er alveg sama ......... Á fjórða degi var ákveðið að búa til salat og við áttum að nefna hvað við vildum hafa í því. Þegar kom að mér sagði ég: furuhnetur ........og þegar einhver kvennanna setti upp vandlætingarsvip bakkaði ég strax og sagði: sleppum bara hnetunum. Þá stóð vinkona mín, mentorinn upp,  barði í borðið og sagði: Anna Lóa, þú skalt fá þínar furuhnetur og hananú!! Mér krossbrá, horfði á konuna eins og hún væri búin að ,,missa“ það og sagði: já en þetta skiptir engu máli - ,,it’s only nuts“!

Mentorinn minn sagði að þetta snerist alls ekki bara um hnetur, heldur hvernig við látum aðra stjórnast með líf okkar af því að við tökum ekki ákvarðanir á eigin forsendum. Stundum væri það vanabundin hegðun að segja: mér er alveg sama og þá gerir umhverfið ráð fyrir því að það þurfi ekki að bera virðingu fyrir óskum okkar eða löngunum. Sjálfstraust okkar ber skaða, því það er ekki gott að finna að skoðanir okkar skipta ekki máli og að fólk reikni jafnvel ekki með að við höfum skoðanir á hlutunum. Mentorinn minn hélt áfram: svo förum við bara í gegnum lífið eins og lauf í vindi, fjúkum til og frá eftir því hvað hentar öðrum og tökum ekki ákvarðanir um hvert við viljum stefna. Anna Lóa, þú segir allt of oft: mér er alveg sama! Ef þú getur ekki tekið ákvarðanir um hvað þú ætlar að borða í hádeginu þá skaltu byrja þar og skoða svo hvernig þú tekur ákvarðanir og velur líf þitt. Málamiðlanir eru eðlilegar í tengslum við ákveðna hluti en á heildina litið áttu að velja fyrir þig það sem þú telur vera gott eða henta inn í líf þitt þá stundina, út frá eigin smekk, gildismati, styrkleikum og draumum. Ætlar þú að fara í nám sem er vinsælt þá stundina án þess að það henti þér, enda í einhverju starfi þar sem styrkleikar þínir fá ekki notið sín, kaupa föt sem einhver sölumaðurinn telur þér trú um að fari þér afskaplega vel,  taka næsta mann sem býðst af því þú vilt ekki vera ein og flytja með honum út í buskann af því að hann velur það? Svo vaknar þú upp einn daginn með menntun sem hentar ekki, í starfi sem þú ert óánægð í, með karli sem þú átt ekkert sameiginlegt með, búsett í Kasakstan og ofan á allt annað,  í fötum sem fara þér hræðilega illa!!  Þetta snýst um að velja sjálfur en ekki að verða valin, eða láta aðra velja fyrir sig. Trúðu mér, þú vilt ekki líta til baka og segja: af hverju valdi ég ekki líf mitt betur! It’s not only about nuts!!

Eftir vikudvöl í Bandaríkjunum var komið að heimferð. Þegar ég var spurð hvort ég væri með séróskir varðandi sætaval í flugvélinni breyttist ég á einu augabragði í Sally (When Harry met Sally) og svaraði: ég vil gjarnan sitja við gang og helst í sætaröð 9-18. Ef ekkert er laust þar þá vil ég frekar vera aftar í vélinni en alls ekki aftast því þar er ekki hægt að halla sætunum. Ég vil ekki vera beint fyrir aftan neyðarútganginn og ef það eru bíóskermar í loftinu þá vil ég alls ekki vera of langt frá einum slíkum. Síðast en ekki síst vil ég fá sæti með heilum glugga - alls ekki svona hálfum sem gluggasætisfarþeginn einokar.  You see, I know how to choose my nuts in life!!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
http://www.facebook.com/Hamingjuhornid