Þú skalt ekki stela!

Fátt er betra í þessu yndislega veðri sem við höfum upplifað í sumar en að njóta útiverunnar við eitthvað sem veitir okkur gleði. Ég eins og svo margir aðrir hef notið þess að fara í golf, göngur, langa og skemmri hjólatúra og margt fleira. Ég elska að hjóla, hvort sem það er innan- eða utanbæjar og sé ekki eftir að hafa fjárfest í fjallahjóli fyrir nokkrum árum. Ja ekki stelur maður hjóli, svo mikið er víst, alla vega ekki nema einu sinni!

Við vorum nýflutt í íbúð í ágætis blokk í Heiðarhverfinu. Eina helgina var ákveðið að hafa hreingerningardag í sameign blokkarinnar og hjólageymslan yrði m.a. tekin í gegn. Í  gegnum árin höfðu safnast saman fjöldinn allur af hjólum og nokkuð ljóst að einhver þeirra tilheyrðu fyrrverandi íbúum. Því var ákveðið að allir sem ættu hjól í geymslunni tækju þau frá svo það væri hægt að sjá hvaða hjól stæðu eftir og þeim síðan hent eða komið til fyrri eigenda ef því væri komið við. Þetta gekk allt eftir og mikið rétt, fjöldinn allur af hjólum sem áttu ekki lengur „heima“ í húsinu stóðu eftir. Flest voru þau í þannig ásigkomulagi að ekki var lagt út í stórtækar aðgerðir til að finna eigendur en þó með einhverjum undantekningum. Innan um „draslið“ leyndist líka þetta fína DBS hjól – rautt og silfrað og í góðu ásigkomulagi. Enginn kannaðist við hjólið og við því sammála um að þarna væri komið hið fínasta hjól fyrir mig. Miðað við fjárráðin okkar á þessum tíma var hjólið eins og himnasending og þurfti lítið annað en laga keðju og pumpa í dekkin og mín var komin af stað. Ég hjólaði um göturnar eins og yngra eintakið af Jessicu Fletcher,  með körfu á stýrinu og barnið á bögglaberanum (jú jú í viðurkenndu hjólasæti) og þarna smitaðist ég af hjólabakteríunni fyrir alvöru.

Hjólið reyndist hinn mesti gæðagripur og dugði næstu árin. Það var reyndar orðið ansi lúið undir það síðasta og ég því farin að láta mig dreyma um að fjárfesta í öðru. Það var svo 7 árum, einhverjum mánuðum, nokkrum húsum og öðrum syni síðar, að ég er úti í garði að reyta arfa þegar vinkona mín kemur við hjá mér á svona líka flottu hjóli.  Ég fer að dásama hjólið og spyrja þessara praktísku spurninga: hvar, hvenær, hversu mikið og hvernig er það. Vinkonan svaraði þessum spurningum samviskusamlega og seldi mér á ógnarhraða þá hugmynd að ég ætti algjörlega skilið að fá nýtt hjól. Ég var auðvitað alveg sammála henni og segi: á það svo sem alveg skilið, er á eldgömlu DBS hjóli sem má muna fífil sinn fegurri!
Á þessu augnabliki fékk vinkonan alveg nýjan glampa  í augun og horfði dreymin fram fyrir sig: ertu á DBS hjóli, ég trúi þér ekki, það er nú bara Rollsinn í hjólum. Ég átti sjálf svona hjól, elskaði það, því það er ekkert sem kemst nálægt DBS. En því var stolið úr hjólageymslunni okkar. Hugsaðu þér, við hjónin fluttum til Danmerkur í eitt ár og leigðum íbúðina á meðan og þegar við komum til baka þá var búið að stela hjólinu. Hver gerir svona! HVER GERIR SVONA!! – bergmálaði í eyrum mínum á sama tíma og rósirnar í garðinum fölnuðu og ég missti sumarbrúnkuna úr andlitinu á augabragði.

Mér leið undarlega og vissi að ég þurfti ekki að spyrja: var þetta þegar þið bjugguð í Heiðarhverfinu??  því svarið lá þarna í loftinu. Ég leiddi vinkonuna út í bílskúr þar sem „hræið“ lá illa hirt og sært á gólfinu og ég get svarið að það var eins og það reisti sig aðeins upp þegar það heyrði í „mömmu“ sinni koma (já já þannig var tilfinningin). Ég leit á vinkonu mína og sagði: við þurfum að tala saman!
Þangað til næst – gangi þér vel.

Anna Lóa Ólafsdóttir
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid