Þú ert excel skjal - ég er hugarkort!

Enn og aftur var umræðuefni okkar samskipti kynjanna: hvernig er það, fer ekki mikil orka hjá þér í byrjun sambands. Maður er í krefjandi vinnu og með heimili, fer í líkamsræktina og búðina, og allt í einu er maður með aðra manneskju með sér í þessu öllu. Hann horfði á mig eins og ég væri frá annarri plánetu: bíddu, Anna mín, á maðurinn ekki sitt líf, af hverju ertu að dröslast með hann í þetta allt? Ég áttaði mig strax á að ég hafði ekki verið nógu skýr: nei sjáðu til, ég tek hann ekki bókstaflega með mér, hann er bara þarna, í hausnum á mér, sem er nokkurn veginn sami hluturinn.  

Svarið var skýrt: NEI Anna Lóa, þegar það er brjálað að gera hjá mér t.d. í vinnunni þá er ég ekki að hugsa um annað á meðan. Þú ert að flækja líf þitt óþarflega og ekki í fyrsta skiptið!!

Ég missti andlitið: ég held að ég sé búin að komast að því hver er munurinn á okkur,  þú ert excelskjal á meðan ég er hugarkort. Þú flokkar: vinna, börn, heimili, kærasta, áhugamál og vinir í þar til gerða dálka og svo opnarðu og lokar einum í einu.  Ert ekki endilega að tengja á milli. Hjá mér er þetta allt tengt og skarast fram og til baka: ég er í miðjunni og svo koma allar þessar hugsanabólur út frá mér, sjálfstæðar en tengjast samt! Held svei mér þá að heilinn þinn sé með fleiri hólfum en minn!

Í framhaldi af þessum umræðum mundi ég eftir sögu frá foreldrum mínum í tilhugalífinu. Ég fékk að heyra hana fyrst frá mömmu og síðan pabba. Deili með ykkur báðum útgáfum.

Reykjavík árið 1954

Mamma: hann bauð mér á stefnumót og ætluðum við að hittast við klukkuna á Lækjartorgi kl. 15.00 og fara svo saman á Hressó og fá okkur kaffi.  Ég var spennt og  var því hálf annars hugar í vinnunni allan daginn enda hugur minn hjá honum. Ég fékk að fara aðeins fyrr úr vinnunni og var komin niður í bæ kl. 14.40. Ég hafði því tíma til að kíkja aðeins í Reykjavíkurapótek og prófa nýjasta varalitinn. Klukkan 14.55 fór ég að klukkunni og ekki laust við að það væru fiðrildi í maganum. Klukkan sló 15.00 og ég horfði í kringum mig, nei hann var hvergi að sjá. Ég var enn róleg, en viðurkenni að kl. 15.30 var ég aðeins farin að óróast og hugsaði að það hefði örugglega eitthvað komið fyrir manninn. Þegar klukkan sló 16.00 stóð mér alls ekki á sama og þegar ég heyrði í sjúkrabíl í fjarska var ég nánast viss um að hann hafi orðið fyrir slysi. Ég þorði ekki að hreyfa mig úr stað en var orðið pínulítið kalt. Klukkan 16.30 stóð mér alls ekki á sama og hugsaði með mér: á hvaða sjúkrahús skyldi hann vera fluttur! Það var alveg ljóst á þessum tímapunkti að eitthvað hræðilegt hafði komið fyrir manninn og líklega ekki til neins að bíða lengur. Þegar ég var rétt um það bil að ganga af stað sé ég hvar hann kemur labbandi eftir Lækjartorginu, með myndavélina um hálsinn, hattinn á höfðinu og ekki skrámu að sjá á honum. Hann var annars hugar og eins og hann sæi mig ekki. Hann kom nær og allt í einu eins og hann hrökkvi við þar sem hann sér mig standa við klukkuna og segir: nei sæl, hvað ert þú að gera hér, ertu að bíða eftir einhverjum?

Pabbi: það var búið að vera brjálað að gera í vinnunni þennan dag og ég á þönum út um allan bæ að taka myndir. Er á leið niður á Morgunblað rétt fyrir klukkan 17.00 og sé hvar hún stendur við klukkuna. Það gladdi mig að sjá hana og ég ákvað að bjóða henni í kaffi og hugsaði: vonandi er hún ekki að bíða eftir einhverjum öðrum!

Mamma og pabbi voru gift í rúmlega 40 ár!
 

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid