Þetta snýst um að velja!

Ég var að verða of sein, við ætluðum að hittast í hádeginu og klukkan orðin rúmlega 12.00. Hún þoldi ekki þegar ég var of sein – hún var ALDREI sein því hún var með ALLT á hreinu. Ég þurfti að undirbúa mig andlega, ekki búin að hitta hana lengi en vissi að næsta klukkutímann yrði talað við mig eins og ég væri 12 ára, eftir að taka út kynþroskann og endajaxlana.

Við kysstumst á franska vísu, kinn við kinn: alltaf aðeins of sein elskan, sumt breytist aldrei – um leið og hún kleip í aðra kinnina! En nóg um það, HVAÐ segirðu gott, hvernig gengur og ertu ekki alltaf þarna hjá MMS?

Ég brosti, það heitir MSS, og jú jú passar, ég.........
Ég komst ekki lengra, hún var komin í gírinn:  svo gott hjá þér að vera alltaf að kenna og svona, svo mikið þú eitthvað. Úff, þú mundir ekki trúa álaginu á mér. Endalausir fundir, ráðstefnur, utanlandsferðir og svo að aðstoða strákana mína sem eru á fullu í háskólanámi, heimsækja mömmu, smá pólitík og svo skólinn um helgar. Svo er ég í átaki, sérðu ekki mun á mér?? Nú ég hefði svo sem ekki átt að taka að mér formennsku í Karríerkonum, en fyrst ég gerði það þá gerir maður það vel. Það eru fundir, kokteilkvöld, óvissuferðir og Guð má vita hvað. Var alveg að spá í að bjóða þér en vissi alveg að þetta væri ekki fyrir þig........æ þú ert samt svo mikið krútt eitthvað. En HVAÐ er að frétta af strákunum?

Jú veistu, allt gott að frétta af þeim, sá yngri býr ennþá heima, hinn .........
Já býr hann ENN heima, þú verður nú að passa að sitja ekki uppi með hann elskan. Börn líma sig á foreldrana í dag – flytja ekki út fyrr en foreldrarnir selja og fara á elliheimili – svo ítalskt eitthvað. Vissulega eru strákarnir mínir heima en þeir eru í svo krefjandi námi og gera svooo miklar kröfur til sín. Þessar elskur, væri ekki hissa þó þeir ættu eftir að skrá nöfn sín á spjöld sögunnar. Nei elskan mín, ég mundi nú bara fara að henda junior út, muna, sleppa, sleppa, sleppa!! En nóg um börnin, ertu enn að hitta þennan mann.....segðu mér allt um hann!

Jú jú við erum að hittast, yndislegur alveg hreint, vinnur við...................
Oh hvað það er gaman að heyra þetta – átt það svo skilið. En manstu, þetta snýst um að velja en ekki að  að vera valin. Ég hef aðeins verið að deita og þú veist nú hvað ég get verið kröfuhörð – maður sættir sig ekki við hvað sem er.  Hitti einmitt mann um daginn þegar ég var úti með kampavínssystrum og sendi honum vinabeiðni og þegar hann var búinn að samþykkja þá bauð ég honum í kaffi.

Já er það, en frábært hjá þér, þetta ..............
Ababbabb ekki grípa frammí elskan, manstu, tvö eyru, einn munnur! Já hvar var ég...við fórum á kaffihús og þá kom nú sannleikurinn í ljós. Hann pantaði kaffi handa okkur en spurði ekkert hvað ég vildi – ég hefði að sjálfsögðu fengið mér latte en drakk bleksvart espresso. Talaði stanslaust um sjálfan sig á milli þess sem hann var á netinu í símanum að tékka á ,,mikilvægum“ pósti sem hann átti von á – right! Horfði á allar konur sem löbbuðu framhjá okkur en aldrei í augun á mér og spurði ekkert um mitt líf. Hann var alltaf að tékka hvað tímanum leið og satt best að segja þá var ég orðin frekar pirruð þarna í lokin.  
HAHA, ég gat ekki hamið mig, í alvöru, ja hérna, þú verður nú að vanda valið betur!

Hum, en af því að þú hefur aðeins meiri reynslu en ég – no offence sko – þetta var á sunnudaginn og nú er kominn miðvikudagur og hann hefur ekkert hringt. Heldurðu að hann hafi engan áhuga??? Er mest hrædd um að hann hafi fundið að ég var orðin pirruð þarna um kvöldið. Finnst þér að ég eigi að hringja í hann!!!
Ok kannski var hún ekki með ALLT á hreinu.

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid