Það er svo geggjað, að geta hlegið!!

Hann skrifaði mér: Eigum við að skoða þetta með að hittast yfir kaffibolla, nema þú sért að hitta einhvern og þetta sé óviðeigandi :)

Ég svaraði: Ég er einmitt á milli karla svo það er alveg viðeigandi að fá sér kaffibolla :)

Seinna sagði hann mér að svarið hafi verið þess eðlis að það var ljóst að ég tæki sjálfa mig ekki of alvarlega sem væri ekki verra. Ég hef alveg átt tímabil í mínu lífi þar sem ég hef vandað mig svo í hverju skrefi að ég hef gleymt sjálfri mér á göngunni. Hef komist að því að lífið er of stutt fyrir leiðindi og fullkomleika og þvílíkur léttir að leyfa sér að hlægja og hafa gaman af lífinu á sama tíma og maður tekst á við verkefni þess.
 
Sérfræðingar í samskiptum segja að í samböndum skipti miklu máli ákveðið magn af leik og húmor. Það sé mikilvægt að geta hlegið saman og þá ekki síst að sjálfum sér en þegar við förum í samband erum við oft svo upptekin af því að vanda okkur að við gleymum því að enginn er fullkominn. Auðvitað er eðlilegt að vilja sýna bestu hliðar í byrjun en hlátur og gleði eru einmitt nauðsynleg á þessum tíma. Þegar við erum að kynnast annarri manneskju er gott að geta haft húmor fyrir sjálfum sér og umhverfinu því það getur verið sá „ísbrjótur“ sem við þurfum á að halda þegar óöryggið hellist yfir mann.
Vinskapur skiptir gríðarlega miklu máli í samböndum og hann þarf að rækta. Rannsóknir hafa sýnt fram á, að það skipti öllu máli að okkur líki við persónuleikann og getum átt góðar og skemmtilegar stundir saman. Þannig eru hlátur og leikur góð leið til að rækta sambandið og sambönd sem hleypa gleði og húmor inn í samskiptin upplifa ánægju og öryggi sem dýpkar aftur tilfinningatengslin. Það er mikið auðveldara að elska þann sem er hægt að hlægja með og lífið er allt of stutt til að taka það of alvarlega.

Fólk dregst sjálfkrafa að léttlyndum og skemmtilegum einstaklingum og þegar þú kemur með hlátur inn í herbergi getur þú breytt andrúmsloftinu þar á jákvæðan hátt. Hlátur er smitandi og bara við það að heyra aðra manneskju hlægja kveikir það stöðvar í heilanum sem fær þig til að brosa og vilja taka þátt í gleðinni.  

„Ég var að kenna yndislegu fólki á námskeiði og var að leggja áherslu á viðhorf okkar gagnvart aldrinum og mikilvægi þess að sjá ferlið frekar: að eldast og öðlast í stað þess að eldast og missa. Þar sem ég stend keik fyrir framan hópinn segi ég með áherslu: þetta snýst um að eldast og eðlast!! Þau gripu nokkur um munninn á sér og ætluðu að halda niðri í sér hlátrinum þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði sagt. Þá sprakk ég úr hlátri og hló með þessum yndislega hóp í smá tíma. Skemmst frá því að segja þá setti þetta tóninn og stutt í húmorinn það sem eftir lifði dags.“

Þegar einstaklingar halda lífi í húmornum er um leið verið að búa til ákveðna vörn gagnvart streitu, ágreiningi og vonbrigðum. Það er vitað að húmor hefur áhrif á heilsu okkar á marga vegu og nægir hér að nefna myndina Patch Adams sem er byggð á sannsögulegum atburðum en þar var hláturinn beinlínis notaður í læknisfræðilegum tilgangi. Þeir eru margir sem telja húmor vera fíflalæti sem eigi ekki alls staðar við og til að vera álitinn faglegur og tekinn alvarlega þurfi maður að vera mjöööög alvarlegur. Þar erum við frekar að tala um almenn leiðindi sem hefur ekkert með  faglegheit að gera. Húmor á líklega hvergi betur heima en á erfiðum tímum og getur létt undir við aðstæður sem eru yfirþyrmandi á einhvern hátt. Hlátur og grátur tengjast órjúfanlegum böndum og þeir sem geta auðveldlega grátið geta yfirleitt líka hlegið af meiri einlægni. Kahlil Gibran (spámaðurinn) orðaði þetta vel: sorgin er gríma gleðinnar.

Hann: Heyrðu, nú er komið að kaffibollanum. Eigum við að hittast á Nordica Hóteli milli kl. 18.00 og 19:00

Ég: Já flott, meinarðu þarna frammi á barnum?

Hann: Já ég var að meina á barnum ekki herbergi 412!!

„Kaffibollinn“ var einkar ljúf stund þar sem húmorinn var aldrei langt undan.


Þangað til næst - gangi þér vel.
Anna Lóa Ólafsdóttir
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid