Takk fyrir mig!

Þegar ég byrjaði að skrifa pistlana í Hamingjuhorninu fyrir tæpum tveimur árum síðan hefði mig ekki grunað að þeir yrðu hátt í 100. Ég setti mér markmið með skrifunum sem ég skrifaði einmitt í fyrsta pistilinn en þar stendur „Ég hef haldið ótal fyrirlestra um hamingjuna á síðustu tveimur árum og hef í framhaldinu ákveðið að skrifa nokkrar greinar um þetta áhugaverða efni, með það markmið að leiðarljósi að hækka hamingjustigið á Suðurnesjum.“

Ég var alveg ákveðin í því að hafa áhrif á þetta svæði og trúi því að mér hafi tekist að vekja fólk til umhugsunar um ýmislegt sem viðkemur lífinu og tilverunni. Ég hef því náð markmiði mínu og fyrir það er ég þakklát. Ég hef ákveðið að þetta verði síðasti pistillinn í Hamingjuhorninu í bili og langar að nota tækifærið og þakka þeim fjölda sem hefur lesið það sem ég hef skrifað, en það hefur verið ómetanlegt að finna þann meðbyr sem ég hef fundið frá byrjun. Ég var líka ákveðin í því að ef mér fyndist ég vera farin að endurtaka mig eða búin að segja allt í bili, mundi ég hafa vit á því að skrifa ekki meira í bili. Ég hef náð þeim stað núna og hlusta því á hug og hjarta og læt þetta gott heita.

Við sem einstaklingar getum öll haft áhrif á það umhverfi sem við búum í og getum meðvitað valið hvort þau áhrif séu jákvæð eða neikvæð. Samskipti eru sjaldnast hlutlaus, þau eru yfirleitt alltaf annað hvort jákvæð eða neikvæð og ég hef meðvitað valið að hafa frekar jákvæðari sýn á lífið. Ég hef til að mynda reynt að vera duglegri að veita athygli því sem vel er gert og deila því með öðrum. Ég hef aukið það að hrósa fólki og þakka því fyrir þegar það gerir vel og finn hvernig það hefur jákvæð margföldunaráhrif á umhverfið. Þannig hef ég reynt að vera meðvituð um að allt það sem ég segi og geri hefur áhrif á umhverfið mitt og tel mikilvægt að gangast við þeirri ábyrgð. Ég hef ákveðið að taka hvorki sjálfa mig né lífið of alvarlega, sjá spaugilegu hlutina á tilverunni þegar það er hægt og hlæja svolítið meira. Þá hef ég þurft að minna sjálfa mig aftur og aftur á að ég er ekki bara þiggjandi - ég er ekkí síður gefandi í þessu samfélagi og er svo óendanlega þakklát fyrir allt sem ég hef fengið til baka eftir að ég fór að vera meðvituð um að gefa meira. Vona svo innilega að þessi viðhorf mín til lífsins hafi skinið í gegn því það skiptir mig máli.

Ég mun halda áfram að stefna að því að hækka hamingjustigið í kringum mig og er á engan hátt búin að segja skilið við Hamingjuhornið. Ég er með Facebooksíðu þar sem ég skrifa pistla, er með fyrirlestra um hamingjuna, námskeið um hamingju og heilsu og margt fleira. Það var stórt skref að stíga að birta skrif mín opinberlega því ég var ekki komin í „öryggið“ mitt þegar kom að skrifum. En þetta er eitt af betri skrefum sem ég hef tekið og aukið sjálfstraustið, skapandi hugsun mína og ritfærni fyrir utan svo margt annað jákvætt. Það þurfti kjark til að stíga út fyrir þægindahringinn og opinbera sig en það þarf ekki síður kjark til að átta sig á hvenær er kominn tími til að endurskoða og endurhlaða og því er þetta skref núna ekki síður liður í að standa með sjálfri mér.

Langar að nota tækifærið og þakka starfsfólki og eigendum Víkurfrétta fyrir að taka mér opnum örmum - án þeirra hefði Hamingjuhornið ekki blómstrað.
Því segi ég full af þakklæti - takk fyrir mig!

Kærleikskveðja
Anna Lóa