Stuð í "öldungadeildinni"

Á tímum framfara og tækni er margt sem breytist í okkar ágæta heimi. Lífslíkur hafa til að mynda batnað mikið á hinum síðari árum og nú í dag eru það um 2/3 sem ná að lifa til elliáranna og 50% líkur eru á því að ná 100 ára aldri fæðist maður á þessari öld. Við veikjumst síðar á ævinni og lifum lengur og betur en forfeður okkar. Öll viljum við eldast en enginn vill vera gamall, heyrði ég um daginn. Þrátt fyrir hið óumflýjanlega þá erum við minnt á að það séu til ótal leiðir til að fara framhjá eðlilegri öldrun, gefa móður náttúru langt nef og vera eins og spriklandi kjúklingar langt fram eftir aldri.

Æskudýrkunin er mikil og allir kannast líklega við að eftir ákveðinn aldur þá er ekki endilega verið að flíka því hvað maður sé gamall og jafnvel talið dónalegt að spyrja um aldur. Hér áður fyrr þýddi það meiri viska og virðing að ná háum aldri og ekki þótti koma til greina að yngra fólk sinnti ábyrgðarstörfum í samfélaginu. Ég heyri á konum nálægt mér í aldri að talan 50 nálgast með ógnarhraða og mis mikil ánægja með það. En af hverju tökum við ekki aldrinum fagnandi og sjáum lífið heildrænt þar sem hvert þroskastigið tekur við af öðru og við höfum tækifæri til að vinna þannig úr þeim verkefnum sem við fáum og bætum við okkur eftir því sem árin færast yfir! Auðvitað er fjöldinn allur af einstaklingum sem fagnar hverju ári og þakkar fyrir að fá tækifæri til að breyta og bæta líf sitt, og með því að dýpka skilning sinn á sér og öðrum og öðlast þannig heilsteypt sjálf með tímanum. Það er nú einu sinni þannig að það skiptir máli að geta horft sáttur um öxl og koma arfinum áfram til kynslóðanna sem á eftir okkur koma. Við getum litið á þetta á tvo vegu: annars vegar að eldast og missa og hins vegar að eldast og öðlast. Okkar innri maður er í sífelldri endurnýjun þótt eitthvað annað glatist og aldrei of seint að breyta því sem betur mætti fara.

Við getum litið á visku sem eitthvað sem við öðlumst í skóla lífsins þar sem markmiðið er að með tímanum aukum við sýn á okkur sjálf og aðra, því sá sem þekkir aðra - þekkir betur sjálfan sig. Hluti af því að eldast er að missa eitthvað af æskuljómanum, gráu hárunum fjölgar og línurnar mýkjast. Á sama tíma getum við svo sannarlega búið yfir öðrum ljóma, sem stafar af því að geta hvílt í eigin öryggi, þurfa ekki sífellt að vera að sanna sig og geta metið sig út frá því sem maður er en ekki því sem maður gerir. Skilningur okkar á lífinu dýpkar með árunum, við verðum víðsýnni og umburðarlyndari og hæfileikinn til að upplifa lífið sem heildrænt ferli, eykst.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er sú að ég er í áfanga í náminu mínu sem heitir „Sálgæsla og öldrun“. Þetta er skylduáfangi og satt best að segja fannst mér ekki spennandi að „verða“ að taka hann. Eigin fordómar skinu í gegn, og mér fannst ég ekkert erindi eiga í að fræðast um það óhjákvæmilega, að eldast, svona rétt eins og það væri ekki hluti af mínum veruleika. Geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég sé kvíðin því að eldast en ég veit bara að ég „faldi“ t.d. fæðingarárið mitt á FB-síðunni minni. Var ég hrædd um að einhverjum þætti ég of „gömul“ og þá fyrir hvað? Hvenær er manneskjan hætt að vera hún sjálf og verður í staðinn aldurinn og útlitið? Hvenær verðum við gömul og hvaða viðmið notum við? Sjötug manneskja í góðu formi getur verið í svipuðu líkamlegu ástandi og þrítug manneskja í kyrrsetu. Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið „skylduð“ í þennan áfanga því satt best að segja þá hefur hann vakið mig til umhugsunar um sjálfa mig og umhverfið mitt og þess vegna deili ég þessu með ykkur í dag.

Vonandi hlotnast mér sú gæfa að eldast og er ég ákveðin í að þakka fyrir hvert ár sem ég öðlast héðan í frá. Ég stefni að því að læra af reynslunni og búa í haginn fyrir góða framtíð. Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ég er öruggari með mig í dag en þegar ég var yngri, ekki eins upptekin af því hvað öðrum finnst, hef aukið umburðarlyndi og þarf ekki að skilja allt og greina (ok þarf ennþá að greina). Ég er líka búin að átta mig á því að það skiptir máli að ég sé sátt við minn innsta kjarna og finni merkingu í því sem ég geri. Öll störf eru jafn merkileg - og það eru ekki verkin sem telja heldur hver þú ert þegar þú sinnir þeim. Ég hlakka til að takast á við nýtt þroskaskeið í mínu lífi - finnst „forskólaárin“ hafa verið fín en er alveg sátt við að þeim sé lokið. Spennandi tímar í „unglingadeildinni“ eru framundan og aldrei að vita hverju maður tekur upp á þar! Ef guð lofar og ég fell ekki í „unglingadeildinni“ fæ ég einn daginn inngöngu í „öldungadeildina“, vonandi ennþá í stuði, sátt við sjálfa mig og lífssöguna! Síðast en ekki síst mun ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka áfanga um öldrun vorið 2012!

Þangað til næst - gangi þér vel

Anna Lóa