Stjórnlaus í Sófíu!

Senn líður að áramótum og þá er hollt og gott að líta yfir farinn veg – skoða sorgirnar og sigrana, meta hvað væri hægt að gera betur og þá hvernig, og setja sér svo raunhæf markmið inn í nýtt ár. Ég og peningar höfum átt sérstök samskipti yfir árin – komumst ekki af án hvors annars en erum einhvern veginn aldrei full sammála um hve miklum tíma við eigum að eyða saman. Spakmæli eins og „að sníða sér stakk eftir vexti“ og „margur verður af aurum api“ hafa fylgt mér frá blautu barnsbeini. Mig langar að það verði smá breyting á þessum samskiptum á nýju ári og ástæðan er líklega reynsla mín í haust en þá komst ég að því að ég haga mér stundum eins og ég sé með alvarlegt einkenni af heilaþoku þegar ég og peningar erum annars vegar og ég missi einhvern veginn stjórnina.

Ég fór í ferð til Búlgaríu í haust og tók ekki með mér Visa kreditkortið þar sem tímanum yrði að mestu varið á fundum og ég í aðhaldsaðgerðum. Ég lofaði þó eldri syni að kaupa sendi í bílinn hans ef ég sæi slíkt en lofaði engu þar sem ég ætlaði ekki að fara í neitt búðarráp. Síðasta daginn voru fundir búnir nokkuð fyrr en gert var ráð fyrir og „moll“ þarna rétt hjá sem nokkrir fundarmanna ætluðu að kíkja í. Mér fannst tilvalið að fara með enda gæti ég athugað með sendinn í leiðinni. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég steig inn í höll Mammons helltist yfir mig réttlæting á háu stigi sem þýddi að ég ÁTTI skilið hitt og þetta og í stað þess að leita að fm-sendi fór ég að versla á mig. Íslenska krónan styrktist í huga mínum um mörg hundruð prósent á nokkrum mínútum þannig að gengisútreikningar voru mér í hag og allt nánast gefins á þessum drottins degi í Búlgaríu. Ég var á svipstundu komin með aðal- og aukahlutverkin í spennumyndinni „Shopaholic í Sófíu“ og hljóp á milli verslana þar sem ör hjartslátturinn sló í takt við brjálaða teknó-tónlist. Ég fann kjólinn sem mig sárvantaði, buxurnar sem ég var búin að leita að lengi, peysuna með gerviskinninu sem gerði mig svo elegant, kremið sem ég bara VISSI að gerði mig 10 árum yngri á 10 mínútum og rankaði ekki við mér fyrr en í snyrtivöruverslun þar sem ég var að festa kaup á jóla-glimmer augnskugganum. Afgreiðslukonan (leikin af Angelinu Jolie) leit þá á mig með stingandi augnaráði og sagði there is no money on your card“ (lesist með hvössum austantjalds hreimi). Ég brosti hálf skömmustuleg og bað hana að reyna aftur, þetta væru klárlega mistök. Hún gerði það en hálf henti svo í mig kortinu og sagði „GET OUT OF HERE“ (ok, hún gerði það ekki en augun hennar sögðu það). Þarna stóð ég ein, allslaus og örvæntingarfull, ekki einu sinni með símanúmerið hjá Ásdísi Rán. Áfallið var mikið þegar ég fór inn á einkabankann og sá með berum augum að ég var búin að eyða öllum peningunum (var hálfpartinn að vona að ég væri fórnarlamb kortasvikara) og kom heim með skottið á milli lappanna og engan fm sendi. Þegar sonur minn spurði hvort ég hefði komist í búðir neyddist ég skömmustulega til að viðurkenna að ég hefði eytt öllum peningunum í sjálfa mig og um leið fuku hollráð mín um aðhald og ábyrgð í peningamálum út um gluggann og samviskubitið óx í réttu hlutfalli við það.

Veit fyrir víst að það eru fleiri sem kannast við það sem ég hef lýst hér að framan, hvort sem er í tengslum við peninga, mat eða eitthvað þaðan af verra. Maður ætlar sér að hafa fullkomna stjórn en áður en maður veit af er góður ásetningur fokinn út í veður og vind og maður er „dottin“ í það. Fyrsta stigið er að viðurkenna vandann en afneitunin er lúmskur fjandi og meðan maður er þar gerist ekkert. Eftir viðurkenninguna þarf að átta sig á hvað maður getur gert til að leysa vandann, láta svo verkin tala og síðast en ekki síst að halda út erfiða kafla þangað til manni hefur tekist að kveðja „gamla lífið“ og er tilbúin að taka á móti því nýja. Ég veit bara að ég persónulega hef engan áhuga á að framleiða myndina „Shopaholic í Sófíu“ númer 2, 3 og 4, svo nú verður breyting á og stjórnleysið kvatt með virtum. Við spyrjum að leikslokum en þetta er tilraunarinnar virði og nú spyr ég þig – ertu með?

Rún vikunnar er ÁS:
Sýnir fram á þörfina til að laða fram og viðurkenna duldar hvatir eða langanir. Þetta er ábending um að kafa djúpt, kanna grundvöll lífs þíns og bergja af óþrjótandi uppsprettu hins guðlega í eðli þínu.

Þangað til næst – gangi þér vel.

Anna Lóa