Spegill, spegill herm þú mér!

Ég hafði farið í gegnum erfiða tíma og álaginu fylgdi mikil streita sem hafði áhrif á líkamann. Ég missti 10 kíló á stuttum tíma, svaf lítið og baugarnir og hárið sýndu merki um að ekki var allt með felldu. Þegar ég skoða myndir af mér frá þessum tíma þekki ég varla þessa veiklulegu konu og það versta er að það vantar alla gleði í augun enda andlega heilsan ekki upp á sitt besta. En þetta er eitt af þeim skiptum sem ég hef fengið ótrúlega sterk viðbrögð vegna útlitsins og ekki fyrir hvað ég var veikluleg – nei: mikið lítur þú vel út, hvað ertu eiginlega búin að missa mörg kíló.....svakalega ertu flott! Ég hef oft verið hugsi yfir þessu því mér hefur sjaldan liðið jafn illa andlega og líkamlega og á þessu tímabili.

Það er lífseig goðsögn að sterk sjálfsmynd tengist útliti en það er ekki endilega samasemmerki á milli þess að líta „vel“ út og að hafa góða sjálfsmynd. Að lifa við þann veruleika að sjálfsmyndin verði betri eftir að útlitið verði allt annað getur verið hæpið en sá sem er með heilbrigða sjálfsmynd er einmitt með umburðarlyndi gagnvart eigin ófullkomleika, þorir að vera hann sjálfur með kostum og göllum og hefur  getu til að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er í augnablikinu.

Sjálfsmyndin tengist útliti okkar og það hvernig við sjáum okkur sjálf, hvernig við ímyndum okkur að aðrir sjái okkur og svo hvernig við viljum vera. Þegar væntingar okkar eru langt frá uppruna útlitinu erum við ekki með góða sjálfsmynd því þrátt fyrir að geta bætt útlitið skiptir miklu máli að sættast við ýmislegt sem er jafnvel óbreytanlegt nema með meiriháttar inngripi. Væntingar annarra til okkar hafa áhrif og það er sífellt verið að senda okkur skilaboð um að við eigum að líta öðruvísi út; grennri, vöðvameiri, sterkari, unglegri o.s.frv. Við erum hvött til að bæta útlitið með þeim skilaboðum að þar fari saman aðlaðandi útlit og heilbrigði en þá gleymist oft í umræðunni að margir eru að fara mjög óheilbrigðar leiðir undir því yfirskini að verða „heilbrigðari“.  Þar er nærtækast að nefna svelti, ofþjálfun, steranotkun, uppköst, skurðaðgerðir o.fl.

Þegar við erum með heilbrigða sjálfsmynd tökum við ábyrgð á því að breyta því sem við teljum að við þurfum að breyta en sættum okkur við annað.  Sá sem er með brotna sjálfsmynd gefur ekki rými fyrir ófullkomleika og reynir því að gera allt 100% eða sleppa því ella. Þá er hætta á að maður leiti í öfgar þegar kemur að hreyfingu eða mataræði og umhverfið sendir þau skilaboð að við séum á hárréttri leið. Engin meðalmennska í boði og sífellt verið að keppast að því að fá viðurkenningu frá umhverfinu þegar mikilvægasta viðurkenningin er frá okkur sjálfum.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við getum bætt sjálfsmyndina alla ævi en þessi mynd af okkur sjálfum er eins og tölvuforrit sem geymir upplýsingar um okkur og hvað við kunnum, getum og viljum í lífinu. Sjálfsmyndin þroskast að miklu leyti hjá okkur þegar við erum börn og þá í gegnum uppeldi og í samskiptum við aðra.

Staðreyndin er sú að hver og einn er einstakur eins og hann er og tekur sjálfur þátt í að móta eigin sjálfsmynd. Þar vegur þungt hvaða áhrif við leyfum umhverfinu að hafa á okkur. Við getum alltaf valið og hafnað og ákveðið fyrir okkur sjálf hvað er gott fyrir okkur. Því er mikilvægt að við séum meðvituð um eigin hæfileika og getu hvað svo sem öðrum gæti þótt um, að við berum virðingu fyrir og elskum okkur sjálf og síðast en ekki síst að við áttum okkur á að við erum þess virði að vera elskuð þrátt fyrir ófullkomleika okkar.

Ég veit bara að vellíðan mín og heilbrigði jukust hjá mér hér um árið og þá í réttu samræmi við heilbrigðara líferni –---- og já kílóin komu aftur. Jafnvægi milli innra og ytra lífernis skiptu þar miklu og smám saman fann ég aftur fyrir þeim eldmóði sem er mér svo mikilvægur þegar ég tekst á við verkefni lífsins. Gleðin í augunum hafði minnst með viðurkenningu annarra að gera – því loks var ég búin að átta mig á því að ég var bara nokkuð ágæt eins og ég var, hvað svo sem vigtin sagði.

Þangað til næst - gangi þér vel.
Anna Lóa Ólafsdóttir
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid