Sól rís – sól sest!

Kl. 21.00 á laugardagskvöldi: komið að hinni árlegu ferð út í Garð þar sem ég og vinkona mín förum saman á Sólseturhátíð. „Heyrðu, bara svo það sé á hreinu þá nenni ég ekki að vera lengi. Er orðin of gömul fyrir langar vökur. Kíkjum á skemmtiatriðin og förum svo fljótlega heim. Skil ekki fólk sem getur verið að undir morgun. Ætla að nota sunnudaginn vel og þá þýðir ekkert að vera eitthvað þreyttur og slappur. Ég hef bara ekki þrek í langar vökur og allt í lagi að fá sér í litlu tána en Guð minn góður hvað ég er hætt að geta skrallað eins og hér í gamla daga. Mér finnst þetta ekki snúast um hvað maður er lengi að – frekar að skemmta sér vel á meðan maður er á staðnum og fara svo heim þegar hæst stendur. Það er alltaf gaman hjá okkur, hvort sem við stoppum stutt eða lengi og svo erum við erum jú orðnar miðaldra „skvísur“ með minna þol! En þar sem maður er orðin fullorðin manneskja þá stjórnar maður þessu auðvitað sjálfur!!“


Kl. 21.30 - 00:00 – sungið, dansað, hoppað, heilsað, hlegið á yndislegu íslensku sumarkvöldi. Íslensk dægurlög sjaldan hljómað svona vel, Valgeir Guðjóns var með allt á hreinu, Valdimar klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og fleiri bönd héldu uppi stanslausu stuði. Aðeins farið að kólna og þá kom finnski snafsinn sér vel og svo var bara að hoppa hærra og tvista hraðar í takt við Sigurjón digra og Taktu til við að tvista!


Kl. 00:00 - „Er okkur boðið í húsbílapartý. Já ok, getum alveg kíkt, hef reyndar aldrei skilið þetta húsbíladæmi. Sá einu sinni þátt um fólk sem á svona húsbíla, verð að viðurkenna að mér fannst það pínu skrýtið. Svo fara þau saman í alls konar ferðir, og leggja bílunum sínum einhvers staðar og tralla saman. Grillað á svona einnota, setið á rósóttu útilegustólunum og drukkið úr plast- vínglösum. Sungið og trallað fram eftir nóttu með kassagítar og munnhörpu. Búa sér til svona „vinargerði“ þar sem þau leggja í hring og enginn kemst inn nema fuglinn fljúgandi. Eru þau svo ekki alltaf að keppast um hver á flottasta og kraftmesta bílinn. Held að þetta sé alveg sér þjóðflokkur, svona eins og hjónin í National Lampoons Christmas Vacation sem komu og lögðu á bílaplaninu hjá Griswald-fjölskyldunni!! Not my thing, eitthvað!!!


Kl. 05:00 – „Ertu að grínast, þetta var geðveikt, eigum við ekki bara að fá okkur svona húsbíl vinkona. Tókstu eftir plastglasinu sem ég drakk úr – fjólublátt í stíl við naglalakkið. Þetta yndislega fólk kann svo sannarlega að skemmta sér. Heldurðu að við getum fengið að fara með í svona ferðir og komist í svona „vinargerði“. Sé okkur alveg í anda túra um landið, getum farið á allar helstu sumarhátíðirnar. Við verðum flottastar á Dönskum dögum og írskum, Humarhátíð, Ástarvikunni, Þjóðhátíð, Sandgerðisdögum og endað á Ljósanótt! Við munum leggja bílnum á góðum stað og syngja og tralla fram eftir nóttu. Þurfum að redda okkur kassagítar og munnhörpu. Þurfum að fá okkur almennilegan kraftmikinn bíl svo við stöndumst samanburð!

Kl. 05:15 – „Er klukkan orðin rúmlega 05:00! Hva.. Sólseturhátíðin er jú bara einu sinni á ári. Skil ekki fólk sem leyfir sér aldrei að sletta úr klaufunum – hefur alltaf áhyggjur af morgundeginum og hvað öðrum finnst. Lifa lífinu – er mitt mottó, get sofið þegar ég er gömul. Miðaldra hvað – aldur er afstæður! Það verður gott að vera í afslöppun á morgun, á það svo sannarlega skilið. Maður er alltaf að, ha, ALLTAF! Ég hlýt að mega stjórna þessu sjálf! Góða nótt vinkona!“

Þangað til næst – gangi þér vel
Anna Lóa