Sögur af fótboltafæðingum

„Mamma, hvernig gekk þér að eiga okkur fimm?“ Ég var ófrísk af eldri syni mínum og þrátt fyrir að vera á námskeiði þar sem ég fékk að vita allt sem skipti máli vantaði mig eitthvað meira. Móðir mín leit á mig og sagði sannfærandi:  Mér gekk vel að eiga ykkur fimm en mundu að það borgar sig ekki að rýna í fæðingareynslu annarra sem getur reynst erfitt því einhverra hluta vegna elska konur að segja ófrískum konum reynslusögur af eigin fæðingu“.

Móðir mín var skynsöm kona og vissi hvað hún söng. En það er svo langt í frá að ég hafi alltaf tekið ráðleggingar hennar og nýtt mér þær því ég er frekar þessi „læra af reynslunni“ týpa.

Ég var stödd í kaffi með nokkrum reynsluboltum þegar talið barst að barnsfæðingum. Mig vantaði hughreystingu frá einhverjum sem höfðu gengið í gegnum þetta áður og aðeins meiri upplýsingar – já svona til að róa mig aðeins því andlegi undirbúningurinn er ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi.
Fyrsta spurningin mín til reynsluboltanna:  hvernig get ég verið viss um að ég sé komin með hríðar. Það var nokkuð ljóst að þeim fannst spurningin mjög heimskuleg og þær ranghvolfdu augunum en svo tók reynslubolti eitt við: þú veist hvenær þú færð hríðar, trúðu mér. Ímyndaðu þér að fá sting í bakið og þú missir andann en átt samt að halda áfram að anda á ákveðnu tempói  (hér tók við leikræn tjáning) og þegar þér finnst eins og þetta sé að ganga yfir þá ertu stungin aftur. Svo þegar líður á langar þig að rembast því það er heill fótbolti sem vill komast út en þú mátt ekki rembast og átt að halda áfram að anda. Svo loks kemur blessaður boltinn út með tilheyrandi látum og eftirköstum fyrir þig. Já „bæðevei“ ég get lánað þér svona sundhring til að sitja á sem er gjörsamlega ómissandi við þessar aðstæður.  Mundu svo að ef þú ert með fleiri konum á stofu þá skuluð þið hvetja hvor aðra þegar kemur að klósettferðum. Flott að nota svona „koma svo stelpa, þú getur þetta“ því trúðu mér, að koma einum bolta út dugar manni alveg í smá tíma en náttúran ekki endilega sammála því.

Var ekki alveg að átta mig á hughreystingunni þarna en var ekki búin að fá nóg: já ok, en þetta hlýtur að vera persónubundið svo fæ ég stuðning frá manninum mínum.

Reynslubolti tvö: haha við skulum bara vona að hann reynist betur en minn. Byrjaði voða vel – við búin að fara á námskeið og æfa öndunina. Svo fór að halla undan fæti þegar hríðarnar hörðnuðu. Hann tók hlutverkið svona líka alvarlega og andaði ótt og títt eins og HANN væri kominn með 10 í útvíkkun en ekki ég með 7 á þessum tímapunkti.  Svo var hann alltaf að reyna að troða á mig glaðloftsgrímunni sem endaði með að ég sló hann með henni.  Þá tók við oföndun, hjá honum sko, og hann féll í yfirlið og allt snerist um hann: greyið, æ dúllan, náið í vatn, komið honum undir ferskt loft o.s.frv. Endaði með því að ég öskraði: hallllóóóó, það er ég sem er að eiga barn hérna sko! Hann var lagður til á baunapoka þar sem hann lá í fósturstellingunni þar til yfir lauk.

Var falin hughreysting þarna! Gerði tilraun til að loka umræðunni: jæja, gott að sjá að þið jöfnuðuð ykkur fljótt og vel og eigið þessi yndislegu börn í dag.

Reynslubolti þrjú vildi leggja sitt af mörkum: fljótt  –  „ræt“!  Þú  skalt taka með þér olíu til að nudda brjóstin því í stað þess að hafa eina stóra bumbu situr þú uppi með tvo „rúbbíbolta“ framan á þér – grjótharða og æðabera. Ok, jákvætt að þetta er líklega í eina skiptið sem brjóstin standa svona út í loftið án hjálpar. Svo væri ekki vitlaust hjá þér að toga reglulega í geirvörturnar áður en þú átt krílið, minnkar líkurnar á því að þú þurfir að nota „mexíkanahatt“.

Engin hughreysting þarna!

Þegar reynslubolti fjögur tók til máls var ég komin með suð fyrir eyrum (líklega af hækkuðum blóðþrýstingi) og veit því ekki hvaða reynslusögu hún deildi. Er nokkuð viss um að þar hafi smogið inn í undirmeðvitundina frásögnin sem átti að fylla mig þrótti og veita þann andlega styrk sem ég þarfnaðist á þessum tímapunkti.
Fæðingin gekk vel!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa Ólafsdóttir
Fylgstu með mér – http://www.facebook.com/Hamingjuhornid