Snyrtivöruokurlánastarfsemi!

Ég var á leið í leikhús með frænku og fékk að nota salernið áður en við lögðum af stað. Ég var nýkomin úr litun og plokkun og var svarti liturinn í húðinni enn nokkuð áberandi. Ég þurfti púður og það fljótt en var ekki með slíkt á mér. Rak augun í meiktúpu á borðinu og hugsaði mér sjálfri mér að það hlyti nú að vera óhætt að fá „lánaða“ nokkra dropa. Opnaði túpuna og kreisti hana og viti menn, það frussaðist úr henni brúnt meikið, svona rétt eins og ég hafi losað um Kárahnjúkastíflu þarna á staðnum. Ég sá mér til hryllings að kjóllinn minn var orðinn doppóttur, sérstaklega önnur ermin og framan á bringunni. Það tók við ein allsherjar panikk-hreinsun sem gerði lítið annað en að dreifa doppunum og ég varð að játa mig sigraða - þetta var snyrtivöruokurlán af verstu gerð. Ég hef áður orðið fyrir slíku og hélt að ég hefði lært mín lexíu. En sumt ætlar að reynast mér erfiðara að læra en annað og ég hef því ákveðið að setja saman leiðbeiningar varðandi þessa starfsemi. Með því vona ég að þú lesandi góður þurfir ekki að borga til baka með okurvöxtum fyrir tiltölulega lítið lán.

Þessi okurlán lýsa sér þannig að maður fær einhverja snyrtivöru „lánaða“ án þess að biðja um leyfi og þá þarf maður að sjálfsögðu að borga okurvexti. Þetta hefur hinar ýmsu birtingamyndir og geta okurvextirnir annaðhvort verið mjög sjáanlegir eða líkamlega óþægilegir, nema hvorutveggja sé.

Farið varlega í að fá „lánað“ hárlakk, því stundum er ómögulegt að sjá á þessum flöskum hvað þær innihalda. Ég get lofað ykkur því að Febreze táfýluúði gerir akkúrat ekkert fyrir hárið nema klessa það niður. Ef þú skyldir verða fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að svitna óeðlilega mikið í einhverjum aðstæðum og ætla að redda þér fyrir horn með tissjúklút  og svitalyktareyði vinar þíns vertu þá viss um hvað er í brúsanum. Það er bara alls ekki þægilegt að uppgötva á miðri bíósýningu að úðinn sem þú fékkst lánaðan undir handarkrikana reyndist vera þurrsjampó, sem skilur húðina eftir rauðflekkótta og kláðinn sem því fylgir gerir bíóferðina allt annað en skemmtilega. Það getur ýmislegt leynst í túpum, sem maður áttar sig ekki á við fyrstu sýn og þess vegna margborgar sig að vera með gleraugun á nefinu ætlir þú á annað borð að taka þér túpuokurlán. Ef þú sækist eftir ferskum andardrætti og ferð með það í huga inn á baðherbergi og setur smá klessu af tannkremi á puttann og nuddar, þá skaltu bara alls ekki útiloka að einhverjum snillingnum datt í hug að það gæti bara verið frábær hugmynd að setja raksápu í túpur. Kosturinn er aftur á móti sá að slík raksápa freyðir ekki eins mikið og sú sem er í brúsunum svo eftir 1-2 tíma er pottþétt hætt að freyða út um munnvikin á þér. Sértu að fá frunsu og vilt stoppa hana á byrjunarstigi skaltu fara afar varlega þegar þú stelst í frunsukremið. Það gæti nefnilega allt eins verið að um sé að ræða vörtueyðir sem gerir næstum gat í gegnum vörina svo í stað lítillar frunsu ertu komin með ör fyrir lífstíð.

Að þessu sögðu er nokkuð ljóst að það er langsamlega farsælast að vera með litla snyrtibuddu í töskunni og sleppa öllum snyrtivöruokurlánum. Komi upp neyðartilvik er best að tala við ,,bankastjórann“ og biðja  um lán um leið og þú biður hann að ábyrgjast að þú fáir það sem þú leitar eftir.

Víkur nú aftur að kvöldinu góða og leikhúsferðinni. Hvað segir maður við frænku þegar maður fer inn á salernið í einlitum kjól en birtist skömmu síðar í doppóttri/skellóttri flík. Jú maður stekkur fram, sjálfsöryggið uppmálað bendir á kjólinn og segir: finnst þér þett‘ekki aðeins betra, mér fannst vanta eitthvað til að poppa þetta upp.


Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
http://www.facebook.com/Hamingjuhornid