Schumacher dugði ekki til!!

Ég var búin að koma mér vel fyrir í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Gott að slaka á eftir erfiðan og langan dag. Hrökk við þegar ég heyri öskur úr herbergi sonar míns „er eitthvað að ykkur - eruð þið algjörir hálfvitar, ha, hálfvitar“. Ég stökk á fætur og rauk upp í herbergi og spurði: hvað gengur hér á?? Ætlaði seint að læra þetta, því auðvitað var hann að öskra á tölvuskjáinn þar sem Fifa leikmennirnir voru greinilega ekki að standa sig sem skyldi.

Ég tók „þú veist að það eru aðeins sannir íþróttamenn sem kunna að tapa“ - ræðuna. Sonur minn leit á mig og sagði: mamma, ertu að grínast, ætlar þú að fara að segja mér hvernig á að tapa. Eigum við að rifja upp þegar þú tapaðir í ratleiknum um daginn, RATLEIK mamma, ekki einu sinni alvöru keppni!!

Tók þátt í ratleik á vinnustaðnum í fyrra þar sem öll fyrirtæki hússins voru saman komin í keppninni og skemmst frá því að segja þá vann ég þá keppni ásamt 4 öðrum samstarfsfélögum. Við vorum ánægðar með sigurinn og þegar fólk var svo hvatt til þess þetta árið að setja saman lið með fólki úr öðrum fyrirtækjum til að kynnast fleirum var mitt lið ekki á því, við ætluðum að vinna þetta aftur - sama liðið.

Starfsfólki hússins hefur fjölgað milli ára og í stað 30 sem tóku þátt í keppninni í fyrra voru það rúmlega 70 manns þetta árið. Tilhlökkunin var mikil og stemmning góð í mínum herbúðum, enda miklu skemmtilegra að vinna svona marga keppendur. Ég bauðst til að vera bílstjóri eins og í fyrra enda borgar sig ekki að breyta því sem hefur virkað áður - Anna Schumacher kann þetta.

Hrokinn bankaði svo upp á nokkra daga fyrir keppni en þá fór ég að skipuleggja fagnaðaröskur og spor í stíl, hvernig ætti að taka á móti bikarnum, hvernig bros passaði við fagnaðarlætin og er málið að fylla bikarinn af kampavíni eða sprauta úr flöskunni eins og í Formúlunni!!

Keppnin var sett af stað og nokkuð ljóst strax frá byrjun að þetta yrði erfiðara en árið á undan. Keppnisskapið var á sínum stað, ég undir stýri og dillaði mér í takt við tónlistina á milli þess sem ég hugsaði hvernig fagnaðarbylgjan ætti að líta út þegar við kæmum á leiðarenda. Mættum fjöldanum af öðrum þátttakendum á götum bæjarins og þeytti ég flautuna og gaf merki um hver væri alveg með‘etta. Gekk ágætlega framan af en þátttakendum fækkaði þó eitthvað á götum bæjarins þegar líða fór á. Satt best að segja var orðið einmanalegt um að litast við sjávarsíðuna í Innri-Njarðvík í erfiðri leit að fingraþulunni sem átti að vera þarna einhvers staðar.

Schumacher var orðinn pirraður og þegar einn farþeginn lýsti því yfir að hann væri orðinn bílveikur lét ég eins og ég heyrði það ekki. Umburðarlyndi og manngæska voru horfin og hroki og keppnisskap tekið við; hún gæti þá bara ælt í poka - færi nú ekki að stoppa ofan á allt saman. Inni í hausnum á mér voru tvær raddir, þar sem önnur tuðaði í sífellu: hafðu gaman af þessu stelpa á meðan hin, Svarthöfðaröddin, sagði í sífellu; þú ert búin að klúðra þessu kona, hvernig ætlar þú að horfa framan í fólkið monthaninn þinn!!!!

Við vorum næstsíðastar í mark og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar við mættum á staðinn - þau héldu nefnilega að við værum týndar. Óþolandi að þurfa að þola þetta og stóð ég sjálfa mig að því að ætla að reyna að búa til sögu um að við hefðum lent í veseni með alternatorinn í bílnum en áttaði mig á að það væru líklega of margir í hópnum sem áttuðu sig á því að ég vissi ekkert um hvað ég væri að tala.

Ég leyfði því fólkinu bara að hlægja og tók þessu eins og lög gera ráð fyrir að fullorðið fólk taki því að tapa: ég tapsár ne,i nei, auðvitað var þetta bara gaman, skiptir máli að vera með og blablabla. Kom svo heim og deildi reynslu minni með fyrrnefndum syni mínum sem skildi vel tilfinningasemi móður sinnar.

Klappaði því létt á axlirnar á honum þar sem hann var að taka Fifa-leik númer tvö og sagði „láttu þá bara heyra það elskan, þeir ná þessu fyrir rest“.

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid